„Þetta eru stórfréttir fyrir kvennahandboltann og í raun fyrir íslenskan handknattleik. Um er að ræða afrakstur af frábærum árangri 18 ára landsliðsins á HM í sumar þar sem liðið hafnaði í áttunda sæti og var í raun hársbreidd frá undanúrslitum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar af tveimur þjálfurum U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is eftir að Handknattleikssamband Evrópu tilkynnti í dag að U19 og U17 ára landslið kvenna taka þátt í A-hluta Evrópumótsins á næsta sumri.
Fyrsta varaþjóð
Ísland tekur sæti Rússa sem varpað var fyrir borð evrópsku handknattleiksskútunnar eftir innrás rússneska hersins í Úkraínu í lok febrúar. Vegna frábærs árangurs U18 ára landsliðs kvenna á heimsmeistaramótinu í Skopje í ágúst varð Ísland fyrsta varaþjóð inn í A-hluta mótanna.
Um leið verður þetta í fyrsta sinn sem tvö yngri landslið kvenna taka þátt í A-hluta Evrópumóts sama sumarið. Einu sinni áður hefur yngra landslið kvenna tekið þátt í A-keppni Evrópumóts. Það átti sér stað 2004. Þá öðlaðist U19 ára landsliðið þátttökurétt og hafnaði í 14. sæti undir stjórn Ágústs Jóhannssonar og Alfreðs Finnssonar. Meðal leikmanna í liðinu voru Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Rakel Dögg Bragadóttir.
„Þetta þýðir að stúlkurnar eru að fara að leika við bestu landslið heims og það gerist svo sannarlega ekki á hverjum degi,“ sagði Ágúst Þór sem réði sér vart af kæti fyrir þessum góðu tíðinum sem styrkja enn íslenskan handknattleik.
Magnaður árangur
„Hér um risastórt skref fyrir íslenskan handknattleik. Það er raun alveg magnað að við verðum með öll okkar yngri landslið, jafnt kvenna sem karla, inn á stórmótum A-liða á næsta ári.
Ánægður og stoltur
Ég er gríðarleg ánægður og mjög stoltur að bæði kvennaliðin skuli hafi ná þessu mikla áfanga. Þetta er frábært fyrir íslenska kvennahandboltann,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna.
Sex landslið HSÍ taka þátt á stórmótum á næsta ári. A landslið karla – HM í Svíþjóð og Póllandi. U-21 karla – HM í Þýskalandi og Grikklandi. U-19 karla – HM í Króatíu. U-17 karla – Opna Evrópumótið í Svíþjóð. U-19 kvenna – EM í Rúmeníu. U-17 kvenna – EM í N-Makedóníu. A-landslið kvenna gæti bæst í hópinn en HM fer fram í desember á næsta ári. Forkeppni hefst í nóvember og takist íslenska liðinu að vinna þá fer það í umspil um HM sæti næsta vor.