Frændur okkur Færeyingar taka þátt í Evrópumótinu í handknattleik karla sem fram fer í Þýskalandi í janúar á næsta ári. Færeyska landsliðið er eitt fjögurra landsliða sem var með besta árangur í þriðja sæti í riðlum undankeppninnar sem lauk í dag. Taka Færeyingar þar með í fyrsta sinn þátt í lokakeppni Evrópumóts í boltaíþrótt í fullorðinsflokki. Færeyingar eru um leið lang fámennasta þjóðin sem tryggir sér sæti í lokakeppni stórmóts í boltaíþróttagrein í fullorðinsflokki.
Færeyingar töpuðu með fimm marka mun fyrir Austurríki í Bregenz í dag, 38:33, eftir að hafa verið undir, 22:15 að loknum fyrri hálfleik. Tapið kom ekki að sök þar sem staða Færeyinga var góð fyrir. Glæsileg frammistaða í sigurleiknum á Úkraínumönnum í Þórshöfn á miðvikudagskvöld lagði grunninn að þessum stórkostlega áfanga Færeyinga sem hafa tekið stórstígum framförum í handknattleik á síðustu árum.
Magnað afrek hjá færeyska landsliðinu.
Hornamaðurinn Hákun West Av Teigum skoraði 10 mörk fyrir færeyska liðið í leiknum í Bregenz. Elias Allefsen á Skipagötu var næstur með fimm mörk. Helgi Hildarson Hoydal skoraði fjögur mörk eins og Óli Mittún. Leivur Mortensen skoraði þrjú mörk, Roi Berg Hansen þrjú, Theis Horn Rasmussen tvö, Trondur Mikkelsen og Peter Krogh eitt mark hvor.
Nicholas Satchwell markvörður KA vaðri níu skot, 33% og Pauli Jacobsen varði fjögur skot, 20%.
Þrjár í viðbót
Auk Færeyinga tryggðu Grikkir, Georgíumenn og Svartfellingar sér þátttökurétt á EM í gegnum árangur í þriðja sæti í riðlunum. Georgíumenn og Grikkir hafa aldrei fyrr krækt sér í keppnisrétt í lokakeppni EM.
Rúmenía verður með á EM karla í fyrsta sinn frá árinu 1996.
Tyrkland, Ítalía, Eistland og Slóvakía sitja eftir með sárt ennið eftir að hafa hafnað í þriðja sæti í sínum riðlum undankeppninnar.