- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórleikur Eyjakonunnar nægði ekki

Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður BSV Sachsen Zwickau. Mynd/Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir lék afbragðsvel með BSV Sachasen Zwickau í dag þegar liðið heimsótti Buxtehuder SV í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Góð frammistaða Eyjakonunnar dugði þó ekki því Zwickau-liðið tapaði með sjö marka mun, 32:25, og er án stiga eftir tvo fyrstu leikina en liðið er nýliði í deildinni.


Díana Dögg skoraði sex mörk, átti sex stoðsendingar, var með a.m.k. þrjú sköpuð færi, vann eitt vítakast og stal knettinum einu sinni. Skal engan undra þótt hún hafi verið valin maður leiksins í leikslok.


Zwickau byrjaði leikinn illa og var fimm mörkum undir í hálfleik, 17:12. Liðið lék afar vel fyrstu 20 mínúturnar í síðari hálfleik og tókst að jafna metin, 22:22, ekki síst vegna stórleiks Díönu Daggar. Í jafnri stöðu átti Zwickauliðið þess kost að komast yfir. Sá möguleiki rann út í sandinn og botninn datt úr leik liðsins síðustu tíu mínúturnar. Tap var því ekki umflúið gegn sterku liði Buxtehuder SV.


„Við töpuðum óþarflega stórt og í raun áttum við möguleika á að vinna í dag en síðustu tíu í báðum hálfleikum voru ekki nógu góðar,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir í svari við skilaboðum handbolta.is.


Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður á heimavelli á miðvikudaginn gegn meisturum síðasta tímabils, Borussia Dortmund.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -