Stórleikur Rúnars Kárasonar dugði Ribe-Esbjerg ekki til sigurs á Ágústi Elí Björgvinssyni og samerjum í KIF Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld þegar 2. umferð hófst. Eftir hnífjafnan leik voru að það Ágúst Elí og félagar sem fögnuðu sínum fyrsta sigri í deildinni í ár, 35:33, á heimavelli. Staðan var jöfn í hálfleik, 16:16.
Ágúst Elí varði sjö skot, þar af þrjú mikilvæg á lokakaflanum. Rúnar skoraði níu mörk í 14 skotum fyrir Ribe – Esbjerg sem enn er án stiga. Auk þess átti hann þrjár stoðsendingar. Rúnar bar af í liðinu. Gunnar Steinn Jónsson átti eitt marskot og eina stoðsendingu. Daníel Þór Ingason var einu sinni vísað af leikvelli en hann leikur nánast eingöngu í vörn.
Meistaralið Aalborg, þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari, vann öruggan sigur á Lemvig á útivelli, 30:22. Aalborg hefur unnið tvær fyrstu viðureignir sínar af öryggi.
Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona, náði ekki að skora fyrir Aarhus United í 20:20 jafntefli við Silkeborg-Voel KFUM, 20:20, á heimavelli í kvöld í úrvalsdeild kvenna. Silkeborgar-liðið var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:10. Liðin eru jöfn að stigum, hafa fimm stig hvort, í fimmta og sjötta sæti deildarinnar eftir fjóra leiki hvort.