- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórlið stendur á brauðfótum

Leikmenn CSM Bucaresti fagna sigrií leik í Meistaradeildinni. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þrátt fyrir að rúmenska liðið CSM Búkaresti sé á góðu skriði í Meistaradeild kvenna með þrjá sigurleiki eftir fjórar umferðir þá er félagið enn á ný í fjárhagsvandræðum og hafa leikmenn ekki fengið greidd laun í þrjá mánuði.

Leikmenn liðsins lýstu óánægju sína með gang mála hjá félaginu um helgina með því að hita upp í bolum með áletruninni „Respect our work! and keep your promises!“ 

Málið er heldur snúið að þessu sinni þar sem félagið er í raun rekið af borgarsjóði Búkarest og hefur haft um 10,5 milljónir evra, jafnvirði 1,7 milljarða króna, í stuðning úr borgarsjóðnum á ári. Það kemur til með að breytast núna eftir borgarstjórnarkosningar sem voru í Búkarest á dögunum. Í þeim tapaði Gabriela Firea, sem hefur verið aðalstuðningsaðilli liðsins, kosningunum fyrir Nicusor Dan. Eitt af því fyrsta sem nýr borgarstjóri ákvað var að minnka framlag borgarinnar um 30% sem strax hefur sett verulegan strik í reikninginn hjá félaginu. Dan hefur nefnilega allt aðra sýn á það hversu mikið af almenningsfé eigi að fara í rekstur liðsins. 

„Félagið er með kvennahandboltalið eins og við öll vitum en það er einnig með mörg lið fyrir börn og unglinga sem mig langar til að efla enn frekar. Hvað varðar liðið þá erum við ekki að fara yfirgefa það en hins vegar hef ég aðra sýn fyrir það en forveri minn. Ég vil að liðinu takist að afla meiri peningar frá styrktaraðilum sínum og fái lægra framlag frá borginni í staðinn,“  sagði Dan.

Það er ljóst að þetta er farið að reyna á þolrifin hjá leikmönnum liðsins og það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála og hvort það endi hreinlega með því að einhverjir leikmenn yfirgefi liðið áður en langt um líður.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -