Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, leikur um 25. sæti á heimsmeistaramótinu í Kína. Liðið vann indverska landsliðið með 18 marka mun í morgun, 33:15, í krossspili um sæti 25 til 28. Andstæðingur íslenska landsliðsins í leiknum um sæti 25 verður landslið Angóla sem lagði Kasakstan 22:20 í morgun. Viðureignin hefst klukkan 10 árdegis.
Alls taka landslið 32ja þjóða þátt í heimsmeistaramótinu sem staðið hefur yfir í Chuzhou í Kína frá 14. ágúst og lýkur á sunnudaginn.
Þetta var í fyrsta sinn sem landslið Íslands og Indlands mætast á handknattleiksvellinum. E.t.v. fyrir þær sakir var rennt örlítið blint í sjóinn í dag. Fljótlega kom í ljós að indversku leikmennirnir eru nánast byrjendur. Þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð í sóknarleiknum sem varð til þess að íslenska liðið skoraði hvert markið á fætur öðru eftir hraðaupphlaup.
Fyrri hálfleikur var leikur kattarins að músinni. Staðan var 17:4, eftir 30 mínútur.
Lengi fram eftir síðari hálfleik var um einstefnu að ræða af hálfu íslenska liðsins sem náði mest 21 marks forskoti, 31:10.
Álaginu var dreift á milli leikmanna íslenska liðsins og fengu flest allar tækifæri til þess að spreyta sig.
Frásögnin hefur verið uppfærð.
Mörk Íslands: Þóra Hrafnkelsdóttir 7, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 6, Ágústa Rún Jónasdóttir 4, Kristbjörg Erlingsdóttir 4, Ásrún Inga Arnarsdóttir 3, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 3, Guðrún Hekla Traustadóttir 2, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1/1.
Varin skot: Ingibjörg Lovísa Hauksdóttir 6, 43% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1, 13%.
HM18 kvenna – leikjadagskrá, milliriðlakeppni, úrslit
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.