Íslendingar voru í sigurliðum í tveimur viðureignum í norsku úrvalsdeild karla í dag og í þriðja leiknum krækti lið með íslenska handknattleiksmann innanborðs í jafntefli.
Bræðurnir Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir fóru með sigurbros á vör af leikvelli eftir stórsigur Kolstad á Follo, 36:21, á heimavelli í kvöld.
Báðir skoruðu
Benedikt Gunnar skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Arnór Snær fékk loksins tækifæri til þess að sýna hvað í honum býr. Hann skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu.
Sigvaldi Björn Guðjónsson, fyrirliði Kolstad, var ekki í leikmannahóp Kolstad að þessu sinni.
Tryggvi í sigurliði
Tryggvi Þórisson lagði hönd á plóginn þegar Elverum lagði Nærbø, 29:20, í Nærbø. Tryggvi skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Jafntefli í Halden
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og félagar í nýliðum Sandefjord halda áfram að kroppa inn stig. Sandefjord gerði jafntefli til Halden, 26:26. Þorsteinn Gauti kom ekki mikið við sögu og skoraði m.a. ekki mark í leiknum.
Phil Döhler fyrrverandi markvörður FH sem gekk til liðs við Sanderfjord í sumar varði 12 skot, 35%.
Drammen á næstu grösum
Kolstad er efst í norsku úrvalsdeildinni með sex stig eftir þrjá leiki. Elverum er með fjögur stig í öðru sæti eftir tap fyrir Drammen á heimavelli í vikunni. Drammen, sem landsliðsmarkvörðurinn Ísak Steinsson leikur með, er einnig með fjögur stig og á inni leik á Elverum og Kolstad.
Sandefjord situr í sjötta sæti með þrjú stig að loknum þremur leikjum.