Fram leikur til úrslita í Coca Cola-bikarnum í handknattleik kvenna sjötta árið í röð á laugardaginn eftir stórsigur á ríkjandi bikarmeisturum KA/Þórs, 31:23, í fyrri undanúrslitaleiknum á Ásvöllum í kvöld. Þetta er um leið í 23. sinn sem Fram á lið í úrslitaleik bikarkeppninnar. Yfirburðir Fram voru miklir í leiknum. Liðið lék sér að KA/Þórsliðinu sem var svo sannarlega langt frá sínum besta dag að þessu sinni.
Eftir jafnar fyrstu mínútur tók Fram-liðið öll ráð á leikvellinum. Vörnin small saman og Hafdís Renötudóttur varði án afláts, jafnt langskot sem opin færi. Sóknarleikur KA/Þórs liðsins var einhæfur og bitlítill. Á sama tíma gekk sóknarleikur Fram eins og í sögu, bæði uppstilltur og hröð upphlaup. Eftir 20 mínútur var forskot Fram orðið fimm mörk. Þótt eitthvað liðkaðist um markaskorun hjá KA/Þór á síðustu 10 mínútum fyrri hálfleiks þá hélt vörnin og markvarslan ekki og því munaði sex mörkum að loknum fyrri hálfleik, 17:11.
Sama sagan var uppi í síðari hálfleik. Framliðið réði lögum og lofum. KA/Þórsliðið komst hvorki lönd né strönd og þá sjaldan tækifæri gáfust, t.d. til að minnka muninn í fjögur mörk, þá gengu þau ríkjandi bikarmesturum úr greipum. Upp úr miðjum síðari hálfleik var forskot Fram átta mörk, 25:17. Andri hafði þá nýtt öll leikhlé sín.
Því miður átti staðan bara eftir að versna. Fram náðu 10 marka forskoti, 27:17, og enn voru þá níu mínútur til leiksloka. Mestur varð munurinn 11 mörk, 30:19.
Stefán Arnarson þjálfari Fram skipti óreyndari leikmönnum inn á síðustu mínúturnar enda var sigurinn löngu í höfn. Fram leikur í úrslitum Coca Cola-bikarsins sjötta árið í röð undir stjórn Stefáns.
Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 5/5, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5/3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Ásdís Guðmundsdóttir 4, Unnur Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 8/1, 38,1%, Matea Lonac 7/1, 29,2%.
Mörk Fram: Emma Olsson 7, Karen Knútsdóttir 6/1, Perla Ruth Albertsdóttir 6, Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Kristrún Steinþórsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Tinna Valgerður Gísladóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 45,5%, Írena Björk Ómarsdóttir 2/1, 28,6%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is er á Ásvöllum og fylgist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.