Stjarnan mætir Val í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik eftir að hafa lagt KA/Þór með 11 marka mun, 33:22, í oddaleik liðanna í 1. umferð í TM-höllinni í dag. Stjarnan var með yfirhöndina frá upphafi til enda. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn fjögur mörk, 14:10.
Fyrsta viðureign Vals og Stjörnunnar verður á laugardaginn. Sama dag hefst einnig viðureign ÍBV og Hauka um sæti í úrslitum Íslandsmótsins.
Stjarnan byrjaði betur í dag og skoraði þrjú fyrstu mörkin. Leikmenn voru greinilega minnugir afleitrar byrjunar á leiknum í KA-heimilinu á fimmtudaginn þegar KA/Þór skoraði níu af fyrstu 10 mörkunum. Stjörnuliðið ætlaði ekki að brenna sig á sama soðinu tvisvar.
Allt fram til loka fyrri hálfleiks var Stjarnan með eins til fjögurra marka forskot. KA/Þór átti nokkrum sinnum möguleika á að jafna metin en hvert tækifærið gekk leikmönnum úr greipum.
Fljótlega í síðari hálfleik skoraði Stjarnan fjögur mörk í röð og breytti stöðunni úr 16:13 í 20:13. Þar með má segja að von KA/Þórsliðsins hafi slokknað. Ekki bætti úr skák að Darija Zecevic varði allt hvað af tók í marki Stjörnunnar. Jafnt og þétt jókst munurinn og segja má að spennan hafi verið úr sögunni síðustu 20 mínúturnar.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 7, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5, Anna Karen Hansdóttir 5, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Hanna Guðrún Hauksdóttir 3, Stefanía Theodórsdóttir 3, Britney Cots 2, Aníta Theodórsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 1, Anna Lára Davíðsdóttir 1, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 16/1, 50% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1, 14,3%.
Mörk KA/Þórs: Ida Margrethe Hoberg 8, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Nathalia Soares Baliana 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Aþena Einvarðsdóttir 2, Anna Mary Jónsdóttir 1, Kristín A. Jóhannsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Sunna Katrín Hreinsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 14, 31,8% – Telma Ósk Þórhallsdóttir 0.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.