Enn er óvíst hvort Bence Imre verði klár fyrir Evrópumótið sem hefst um miðjan janúar. Ungverski hægri hornamaðurinn tognaði á kviðvöðva 10. desember í leik THW Kiel og Stuttgart. Ungverska landsliðið er einn þriggja andstæðinga íslenska landsliðsins í riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í næsta mánuði.
Gert er ráð fyrir fjögurra til sex vikna batatíma.
„Mér líður vel, en þetta eru meiðsli sem geta verið lúmsk. Maður getur fundið fyrir því að maður sé klár, en svo getur eitt skot eða ein röng hreyfing þýtt að maður þurfi aftur að taka sér nokkurra vikna hvíld. Það væri ekki gott, því ég vil virkilega spila á EM og mig langar heldur ekki að eyða síðasta hálfa árinu mínu hjá Kiel á áhorfendapöllunum,“ segir Bence Imre við þýska fjölmiðla.
Imre kveður THW Kiel í vor og gengur þá til liðs við ungverska meistaraliðið One Veszprém.




