- Auglýsing -
- Auglýsing -

Suður Kóreumenn voru kjöldregnir – Ísland í milliriðil

Bjarki Már Elísson skoraði átta mörk í dag og er markahæstur á HM. Auk þess skoraði hann sitt 100. HM marki í leiknum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið tók leikmenn Suður Kóreu í kennslustund í lokaleik liðanna í D-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik í Kristianstad Arena í kvöld, 38:25, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 19:13.

Þar með er alveg gulltryggt að íslenska landsliðið fer áfram í milliriðlakeppnina sem fram fer í Gautaborg og hefst á miðvikudaginn. Íslenska landsliðið tekur með sér tvö stig. Það skýrist í kvöld, eftir viðureign Portúgal og Svíþjóðar, í hvaða röð íslenska liðið mætir Brasilíumönnum, Grænhöfðeyingum og Svíum á miðvikudag, föstudag og á sunnudaginn.


Eftir góðan fyrri hálfleik var síðari hálfleikur samt ennþá betri. Menn léku af fullum þunga allt til loka.


Íslensku leikmennirnir tóku leikinn föstum tökum frá byrjun og gáfu Suður Kóreumönnum nánast aldrei nein grið. Viktor Gísli Hallgrímsson varði vel í markinu frá byrjun til enda, alls 19 skot, þar af 10 í fyrri hálfleik.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 11 mörk, þar af átta í fyrri hálfleik. Mynd/EPA


Óðinn Þór Ríkharðsson kom eins og stormsveipur inn í liðið og skoraði alls 11 mörk, þar af átta í fyrri hálfleik. Þetta voru hans fyrstu mörk á stórmóti.


Bjarki Már Elísson skoraði átta mörk og varð sjötti leikmaðurinn til þess að rjúfa 100 marka múrinn fyrir Ísland á HM. Hann hefur alls skorað 106 mörk.


Að þessu sinni var leikið á breiddinni. Allir leikmenn að Björgvin Páli Gústavssyni, Sigvalda Birni Guðjónssyni og Ómari Inga Magnússyni fengu tækifæri til þess að spreyta sig. Viggó Kristjánsson var lengi í gang en skilaði sex mörkum og átta stoðsendingum. Gísli Þorgeir Kristjánsson átti einnig átta stoðsendingar.

Leikmenn íslenska landsliðsins þakka frábærum stuðningsmönnum fyrir. Mynd/EPA


Stuðningsmenn settu síðan punktinn yfir i-ið með mögnuðum stuðningi þriðja leikinn í röð með frábærum kórsöng fyrir og eftir leikinn.


Mörk Íslands: Óðinn Þór Ríkharðsson 11, Bjarki Már Elísson 8/3, Viggó Kristjánsson 6, Janus Daði Smárason 4, Aron Pálmarsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Elliði Snær Viðarsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Elvar Ásgeirsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 19/1, 39,5%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -