Glöggur lesandi hafði samband og benti handbolta.is á skemmtilega tengingu á milli sigurs karlalandsliðsins í B-heimsmeistarakeppninni árið og 1989 og sigurs kvennalandsliðsins í forsetabikarkeppni heimsmeistaramótsins í gær. Þótt það væri eitt og sér áhugavert að um væri að ræða fyrsta bikarinn sem A-landslið Íslands í handknattleik vinnur í alþjóðlegri keppni frá sigrinum í B-keppninni væri þar með ekki öll sagan sögð.
Ekki væri síður áhugaverð sú staðreynd að hinn 26. febrúar 1989, daginn sem úrslitaleikur B-keppninni á milli Íslands og Póllands fór fram í París, fæddi Helga Ingvadóttir stúlkubarn.
Stúlkan sú hefur heldur betur vaxið úr grasi, er nú fyrirliði kvennalandsliðsins og ein reynslumesta handknattleikskona landsins, Sunna Jónsdóttir. Sunna tók við forsetabikarnum í Arena Nord í gærkvöld. Fyrsta bikarnum sem A-landslið Íslands hlýtur fyrir sigur í alþjóðlegri keppni síðan í París 26. febrúar 1989. Daginn sem Sunna fæddist.