- Auglýsing -
- Auglýsing -

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

Gunnar Torfason, Svana Jörgensdóttir og Liselotte Oddsdóttir Singer. Mynd/Einkasafn
- Auglýsing -

Þegar litið var á nöfn félaga fyrir aftan landsliðsmenn Íslands, sem mættu í slaginn á Evrópumótinu í Ungverjalandi/Slóvakíu, kom fáum á óvart að ellefu þeirra léku með þýskum liðum og fjórir aðrir í 20 manna hópi, höfðu leikið með liðum í Þýskalandi; alls 15 leikmenn, eða 75% af leikmönnum. Það má með sanni segja að síðustu þrjá áratugi, hafi „vagga“ landsliðsins verið í Þýskalandi, þar sem margir af bestu leikmönnum Íslands hreiðruðu um sig. Síðan að Geir Hallsteinsson, FH, gerðist leikmaður Göppingen 1973, hefur stór hópur landsliðsmanna leikið með þýskum liðum.

Ýmir Örn Gíslason hefur leikið með Rhein-Neckar Löwen í tvö ár. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Frá því að úrvalsdeild karla; „Bundesligan“ var tekin upp keppnistímabilið 1977-1978 í Þýskalandi, hafa 88 Íslendingar látið ljós sitt skína með 46 liðum. Flestir voru á ferðinni keppnistímabilið 2009-2010, eða 17 leikmenn, en á yfirstandandi tímabili leika 14 leikmenn í „Bundesligunni“ og þá eru tveir leikmenn í herbúðum Gummersbach (2. deild), sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar auk Antons Rúnarssonar (TV Emsdetten), Arnars Birkis Hálfdánssonar og Sveinbjörns Péturssonar (EHV Aue) og Tuma Steins Rúnarssonar (HSC Coburg).

Teitur Örn Einarsson og Elliði Snær Viðarsson glaðir eftir góðan sigurleik á EM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Hér er listinn yfir leikmennina ellefu frá þýskum liðum, sem léku á EM: Bjarki Már Elísson, Lemgo, Elvar Örn Jónsson, MT Melsungen, Daníel Þór Ingason, Balingen-Weilstetten, Gísli Þorgeir Kristjánsson, SC Magdeburg, Janus Daði Smárason, Göppingen, Teitur Örn Einarsson, Flensburg, Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg, Viggó Kristjánsson, Stuttgart, Arnar Freyr Arnarsson, MT Melsungen, Elliði Snær Viðarsson, Gummersbach, Ýmir Örn Gíslason, Rhein-Neckar Löwen.

Viggó Kristjánsson er einn Íslendinganna sem slegið hefur í gegn í Þýskalandi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Hér eru þeir fjórir, sem hafa leikið með þýskum liðum: Björgvin Páll Gústavsson (Magdeburg, Bergischer), Aron Pálmarsson (Kiel), Ólafur Andrés Guðmundsson (Hannover Burgdorf) og Elvar Ásgeirsson (Stuttgart).

Daníel Þór Ingason bættist í hóp Íslendinga í þýska handboltanum á síðasta sumri. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Fjórir leikmenn sem leika með liðum í „Bundesligunni“ voru ekki á EM; Arnór Þór Gunnarsson, Bergischer og Alexander Petersson, MT Melsungen, sem gáfu ekki kost á sér, Oddur Gretarsson, Balingen-Weilstetten, meiddur og Andri Már Rúnarsson, Stuttgart.

Svana tók fyrstu skrefin!

Það var ekki Geir Hallsteinsson, sem varð fyrstur Íslendinga til að leika handknattleik með liði í Þýskalandi. 15 árum áður en Geir steig á fjalirnar, hóf 24 ára kona úr Ármanni, Svana Jörgensdóttir, að leika handknattleik með liði í München. Svana (F: 28.3 1934. D: 23.8. 2020), sem var í Norðurlandameistaraliði Íslands 1964, dvaldist í München með manni sínum Gunnari Torfasyni og börnum, er Gunnar var við verkfræðinám og lék hún með liðinu ESV Laim á árunum 1958-1961. Félagið var stofnað af járnbrautarstarfsmönnum, þannig að íslensku „handknattleiksteinarnir“ voru lagðir þaðan og áttu eftir að tengja saman „Íslendingalið“ um allt Þýskaland.
Svana lék 78 opinbera leiki með ESV Laim er hún dvaldist í München.


Samherji Svönu hjá Ármanni og með landsliðinu, Liselotte Oddsdóttir (síðar bættist nafnið Singer við), varð næsti Íslendingurinn til að kasta handboltanum með þýsku liði. Hún gerðist leikmaður með Eimbüttler Turnverband og fagnaði Þýskalandsmeistaratitli í ellefu manna útihandknattleik, á stórum velli, 1966, er liðið vann Düsseldorf í úrslitaleik, 6:4.

Flakkað um Þýskaland – eltir á röndum!

Við munum á næstunni flakka um Þýskaland eftir járnbrautarteinunum, sem Svana fór fyrst eftir fyrir 64 árum. Fyrsti áfangastaðurinn verður brautarstöðin (Bahnhof) í Göppingen, þar sem Geir Hallsteinsson, stekkur frá borði og þá rifjum við upp eftirsóttar stórskyttur frá Íslandi, eins og Axel Axelsson, Fram, Einar Magnússon, Víkingi og Ólaf Einarsson, FH, sem voru eltir á röndum; og teknir úr umferð hvert sem þeir fóru.

Alexander Petersson er einn reynslumesti Íslendingurinn sem leikið hefur í Þýskalandi. Mynd/EPA


Við eigum eftir að koma víða við. Köllum til sögunnar Alexander Petersson, sem lék sinn 500. leik í „Bundesligunni“ á dögunum. Hann hefur leikið með sex félögum á 18 keppnistímabilum frá, 2003. Þá könnum við árangur Alfreðs Gíslasonar sem leikmanns og þjálfara, en hann hefur tekið þátt í 762 leikjum í „Bundesligunni“ og fagnað 9 Þýskalandsmeistaratitlum á 25 keppnistímabilum.
Fjórir Íslendingar hafa orðið markakóngar í „Bundesligunni“ – já, og tveir í 2. deild.

Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Rhein-Neckar Löwen árið 2018. Mynd/EPA


Guðjón Valur Sigurðsson hefur skorað flest mörk Íslendinga í „Bundesligunni“ – 2.114 mörk með Essen, Gummersbach, Kiel og Rhein-Necker Löwen.
Þess má geta til gamans að Ómar Ingi Magnússon, sem var markakóngur á EM á dögunum, með 59 mörk, er leikmaður með Magdeburg, en Ólafur Stefánsson lék einnig með liðinu þegar hann varð markakóngur á EM í Svíþjóð 2002, skoraði 58 mörk.

„Icelandic fish!“

Ég má til með að rifja upp smá sögu, sem átti sér stað eftir síðustu leikina í Eystrasaltskeppninni í Þýskalandi 1980, en þá buðu heimamenn til mikillar veislu í Bremen. Í veislunni voru fluttar ræður. Einn af forráðamönnum Bremen, sem var nokkuð íturvaxinn, hélt snjalla ræðu og sagði frá komu íslenskra fiski- og fraktskipa til Bremen og Bremenhaven með fiskafurðir. Mikil og góð vinabönd hafi skapast á milli Þjóðverja og Íslendinga. Að lokinni ræðu gekk ræðumaðurinn fram hjá íslenskum útvarpsmanni, sem stóðst ekki mátið – potaði fingri í maga hans og sagði hátt: „Icelandic fish!“


Júlíus Hafstein, formaður HSÍ, var ekki ánægður með þessa framkomu gagnvart gestgjafanum og baðst afsökunar á framkomu útvarpsmannsins.


Íslenska „Lestin“ er farin af stað. Það verður farið vítt og breitt yfir sviðið á ferð hennar um Þýskaland, frá München til Magdeburgar, með viðkomu í Svartaskógi, á Elbu- og Rínarbökkum og víða.

Auf Wiedersehn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -