- Auglýsing -
Handknattleiksdómararnir Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma undanúrslitaleik Ungverja og Svía á Evrópumóti 18 ára landsliða karla í Podgorica í Svartfjallalandi í dag. Þegar dómarar fá undanúrslitaleiki á stórmótum þá er það til marks um að þeir hafi staðið sig vel fram til þessa.
Svavar Ólafur og Sigurður Hjörtur flauta til leiks klukkan 16 í Verde Complex. Þetta verður fimmti leikurinn sem þeir dæma á mótinu sem lýkur á sunnudaginn.
Spánverjar og Þjóðverjar mætast í hinum leik undanúrslita mótsins. Sigurliðin mætast í úrslitaleik á sunnudaginn.
Ekki aðeins verða íslenskir dómarar í eldlínunni á EM í dag því íslenska landsliðið leikur við Slóvena klukkan 16 í krossspili um níunda til tólfta sæti mótsins. Viðureign Íslands og Slóveníu fer fram í S.C. Moraca íþróttahöllinni í Svartfjallalandi.
Handbolti.is verður með textalýsingu frá leiknum eins og öðrum leikjum Íslands í keppninni. Einnig geta þeir sem tök hafa á fylgst með útsendingu á ehftv.com.
- Auglýsing -