Handknattleiksmarkvörðurinn Sveinbjörn Pétursson hefur samið til eins árs við ísraelska handboltafélagið Hapoel Ashdod. Akureyri.net segir frá þessu í morgun og vitnar til samfélagsmiðla ísraelska félagsins. Sveinbjörn verður fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að leika með atvinnumannafélagi í Ísrael.
Borgin Ashdod er við Miðjarðarhafsströnd Ísrael, lang stærsta hafnarborg landsins. Hún er rúmlega 30 kílómetrum sunnan við Tel Aviv og tæpum 50 kílómetrum norðan Gaza strandarinnar.
Sveinbjörn hefur síðustu fjögur ár leikið með EHV Aue í Þýskalandi og alls átta ár með tímabilinu frá 2012 til 2016 meðtöldu. Hann er uppalinn á Akureyri og hóf ferilinn með Þór. Sveinbjörn lék einnig með Akureyri, sameiginlegu liði Þórs og KA, og hér heima auk þess með HK og Stjörnunni. Einnig á Sveinbjörn nokkra landsleiki að baki.
Sveinbjörn til liðs við Ashdod í Ísrael
Karlar – helstu félagaskipti 2024