Línu- og landsliðsmaðurinn í handknattleik, Sveinn Jóhannsson, hefur samið við þýska 1. deildarliðið HC Erlangen til tveggja ára. Hann gengur til liðs við félagið næsta sumar eftir þriggja ára veru hjá danska úrvalsdeildarliðinu SønderjyskE Håndbold.
HC Erlangen greindi frá væntanlegri komu Sveins í morgun.
Sveinn, sem er 22 ára gamall, á að baki 10 A-landsleiki fyrir Ísland. Hann var í EM hópnum 2020 og tók þá fyrst þátt í stórmóti A-landsliða. Einnig tók Sveinn þátt í síðustu landsleikjunum í undankeppni EM í lok apríl og í byrjun maí.
Sveinn er í 35 manna landsliðshópnum sem valinn var á dögunum fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í næsta mánuði.
Sveinn lék upp yngri flokka Fjölnis og upp í meistaraflokk. Síðasta tímabilið áður en Sveinn hélt til Danmerkur sumarið 2019 lék hann eitt tímabil með ÍR.
Norski línumaðurinn Petter Øverby samdi við Kiel í gær er Sveini ætlað að fylla hans skarð.
Sveinn verður annar Íslendingurinn til að leika með HC Erlangen. Sigurbergur Sveinsson var í herbúðum félagsins 2014 til 2015. Til viðbótar var Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Erlangen frá 2017 – 2020.
HC Erlangen er með bækistöðvar í Nürnberg og leikur heimaleiki sína í Arena Nürnberger Versicherung sem rúmar 8.300 áhorfendur í sæti.