Stjarnan hefur samið við Sverri Eyjólfsson um að taka við þjálfun 3. flokks kvenna í handknattleik fyrir komandi keppnistímabil.
Sverrir kemur til starfa með mikla reynslu úr handboltanum, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann hefur unnið með ungum leikmönnum í gegnum tíðina og er þekktur fyrir faglega og markvissa nálgun við þjálfun. Einnig þjálfaði hann tímabilið 2022 – 2024 meistaraflokk Fjölnis og stýrði liðinu m.a. til sigurs í umspili Olísdeildar karla.
Þar að auki er Sverrir mikill Stjörnumaður enda lék hann með liðinu upp yngri flokka og árum saman með meistaraflokki.
„Það er virkilega spennandi að fá tækifæri til að vinna með 3. flokki kvenna hjá Stjörnunni. Félagið er með öfluga uppbyggingu í yngri flokkum og það er greinilegt að það er mikill metnaður fyrir hönd kvennaboltans. Ég hlakka til að kynnast hópnum og byrja með æfingar,” er haft eftir Sverri í tilkynningu Stjörnunnar.