Svíar sitja einir í efsta sæti milliriðils tvö á Evrópumóti karla í handknattleik að lokinni fyrstu umferð. Svíar lögðu Slóvena, 35:31, í Malmö Arena í kvöld. Slóvenar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:16. Svíar skoruðu þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks og héldu forystunni til leiksloka. Ákafar tilraunir Slóvena til að snúa við taflinu báru engan árangur.
Næsti leikur Svía á Evrópumótinu verður gegn íslenska landsliðinu á sunnudaginn. Flautað verður til leiks klukkan 17. Slóvenar og Ungverjar eigast við fyrr sama dag. Síðasti leikur riðilsins á sunnudaginn verður á milli Sviss og Króatíu
Lukas Sandell var markahæstur hjá Svíum með sjö mörk. Eric Johansson skoraði sex mörk og Hampus Wanne kom þar á eftir með fimm mörk.
Domen Makuc skoraði átta mörk fyrir slóvenska landsliðið. Kristjan Horzen var næstur með fimm mörk ásamt Domen Novak.


