- Auglýsing -
Svíar leika til úrslita á Evrópumeistaramótinu í handknattleik á sunnudaginn. Þeir mæta ríkjandi Evrópumeisturum Spánar í úrslitaleik í Búdapest. Sænska landsliðið vann franska landsliðið í undanúrslitum í kvöld, 34:33, í miklum spennuleik í MVM Dome.
Svíar náðu að standast áhlaup Frakka undir lokin á leiknum, ólíkt því sem frændur þeirra, Danir, gerðu í fyrrakvöld. Markvörðurinn Andreas Palicka var hetja Svía en hann varði tvisvar sinnum frá Ludovic Fabregas af línu á síðustu mínútunni, þar af í seinna skiptið þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum.
Svíar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14.
Heimsmeistarar Dana máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir Spánverjum í fyrri viðureign undanúrslitanna, 29:25. Danir voru marki yfir í hálfleik, 14:13. Þeir réðu hinsvegar illa við Spánverja þegar á leið undanúrslitaleikinn í kvöld. Víst er að spænska liðið leikur ekki skemmtilegan handknattleik. Ekki er hinsvegar spurt að því þegar öllu er á botninn hvolft.
Úrslitaleikurinn hefst klukkan 17 á sunnudaginn en bronsviðureignin klukkan 14.30.
- Auglýsing -