Felix Claar fór fyrir sænska landsliðinu í kvöld þegar það vann brasilíska landsliðið, 34:27, í fyrri vináttuleik þjóðanna í handknattleik karla í Husqvarna Garden í Jönköping. Claar skoraði sjö mörk og sá um leið til þess að sænska landsliðið náði sex marka forskoti snemma í síðari hálfleik. Því forskoti héldu Svíar meira og minna til leiksloka.
Brasilíumenn skoruðu fjögur síðustu mörk fyrri hálfleiks og voru aðeins marki undir í hálfleik, 14:13.
Michael Apelgren landsliðsþjálfari Svía gaf öllum leikmönnum í 16-manna hópnum tækifæri til þess að spreyta sig. Þar á meðal var hinn ungi Axel Månsson sem gert hefur það gott með IFK Kristianstad á leiktíðinni. Månsson er væntanlega á leiðinni á sitt fyrsta stórmót A-landsliða eftir að hafa verið burðarás undanfarin ár með yngri landsliðum Svía.
Síðari viðureign þjóðanna verður í Partille Arena á miðvikudagskvöld.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar




