- Auglýsing -
- Auglýsing -

Svíinn tekur fram skóna til að verja mark Evrópumeistaranna

Mikael Aggefors hleypur í skarðið hjá SC Magdeburg út keppnistímabilið. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Forráðamenn Evrópumeistaraliðs SC Magdeburg hafa samið við sænska markvörðinn Mikael Aggefors til loka keppnistímabilsins. Er hann þegar kominn til Þýskalands.

Með þessu er brugðist við brottfalli svissneska landsliðsmarkvarðarins Nikola Portner sem féll á lyfjaprófi á dögunum. Frekar ósennilegt er að Portner leiki með Magdeburg á næstunni. Þýskir fjölmiðar greindu frá því í gær að leyfar af Methamphetamine hafi orðið Portner að falli.

Lagði skóna á hilluna í fyrra

Mögulegt var að semja við Aggefors nú þegar vegna þess að hann er samningslaus eftir að hafa lagt skóna á hilluna á síðasta sumri eftir sjö ára veru hjá Aalborg. Síðan hefur Svíinn þrautreyndi verið markvarðarþjálfari Alingsås í heimalandinu sínu.

Aggefors er 39 ára gamall og fyrrverandi landsliðsmarkvörður Svía og var m.a. í silfurliðinu á HM 2021.

Vantaði reynslu

Auk Portners er Spánverjinn Sergey Hernandez markvörður Magdeburg til viðbótar við óreyndari yngri markverði. Í ljósi stöðunnar á Portner varð að vinna fljótt og ná í samningslausan markvörð.

Ekki var mögulegt að kaupa markvörð frá öðru félagi vegna þess að lokað hefur verið fyrir félagaskipti í Þýskalandi nema vegna komu samningslausra leikmanna. Einnig fer hver að verða síðastur að tilkynna leikmannahóp Magdeburg sem tekur þátt í átta liða úrslitum Meistaradeildar síðar í mánuðinum.

Beint í bikarhelgina

Reikna má með að Aggefors verði í leikmannahópi Magdeburg strax á morgun í undanúrslitaleik þýsku bikarkeppninnar. Magdeburg, sem er í næst efsta sæti þýsku 1. deildarinnar, mætir efsta liðinu, Füchse Berlin, í undanúrslitum sem fram fara í Lanxess Arena í Köln.

Í hinni viðureign undanúrslita eigast við Melsungen og Flensburg.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -