Svikahrappur fer ljósum logum um netheima undir nafni Guðjóns Vals Sigurðssonar fyrrverandi fyrirliða íslenska landsliðsins og núverandi þjálfara þýska liðsins Gummersbach. Reynt hefur verið árangurslaust að kveða svikahrappinn í kútinn, eftir því sem Guðjón Valur segir í samtali við Sport Bild í Þýskalandi í gær.
Hefur fé af fólki
Svikahrappurinn reynir að hafa fé af almenningi með því að bjóða varning til sölu eða fundi með leikmönnum gegn greiðslu. Einhverjir hafa fallið í gryfju svikanna. Standa Guðjón Valur og forráðamenn Gummersbach ráðþrota frammi fyrir svindlinu. Svikasíðan hefur verið tilkynnt en því miður hefur það ekki borið árangur.
Hjálpar leitað
„Við erum í raun ráðþrota og hjálparvana núna. Við þurfum hjálp til að binda enda á þetta allt saman,” segir Guðjón Valur m.a. en eins og gefur að skilja skaðar svikasíða sem þessi ímynd Guðjóns Vals og Gummersbach.
Þrautseigur viðureignar
Christopher Schindler hjá Gummersbach segir félagið hafa áður átt við svikahrappa á netinu og utan þess en því miður hafi þessi sem nú er fengist við orðið þrautseigari viðureignar en margir aðrir. Þar af leiðandi verði ekki hjá því komist að leita til yfirvalda til þess að vinna bug á óværunni sem skaði þjálfarann og félagið.