Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði síðari vináttuleiknum við landslið Sviss í Schaffhausen í dag, 29:28, eftir að hafa verið yfir yfir í hálfleik, 12:9. Svissneska liðið komst yfir í fyrsta sinn eftir liðlega 55 mínútna leik, 27:26, og tókst að vera á undan að skora eftir það allt til leiksloka. Íslenska liðið átti sókn á síðustu sekúndu og gat jafnað metin. Allt kom fyrir ekki. Boltinn tapaðist og leikmönnum Sviss tókst að halda forskoti sínu til leiksloka.
Þetta var síðasti leikur íslenska liðsins fyrir Evrópumótið sem hefst á fimmtudaginn í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi. Upphafsleikur íslenska liðsins á EM verður á föstudaginn gegn hollenska landsliðinu sem tapaði fyrir danska landsliðinu í dag, 32:30, í Kaupmannahöfn.
Í var íslenska liðið með yfirhöndina allan fyrri hálfleik og fram eftir öllum síðari hálfleik. Á fyrstu mínútum hálfleiksins var forskotið allt að fimm mörk, Íslandi í vild. Svissneska liðið vann sig inn í leikinn og segja má að síðustu 20 mínúturnar hafi munað einu til tveimur mörkum íslenska liðinu í vil allt þar til Sviss jafnaði metin, 26:26, fimm og hálfri mínútu fyrir leikslok.
Error, no group ID set! Check your syntax!Mörk Íslands: Andrea Jacobsen 9, Dana Björg Guðmundsdóttir 5, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Perla Ruth Albertsdóttir 4/4, Steinunn Björnsdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 7, 30% – Hafdís Renötudóttir 3, 20%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.