- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Varnarlaust íslenskt landslið – möguleikinn á undanúrslitum fjarlægist

- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik var nánast varnarlaust í dag þegar það tókst með erfiðismunum að ná jafntefli við Sviss, 38:38, í þriðja og næstsíðasta leiknum í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í Malmö Arena. Varnarleikurinn var lengst af enginn frá upphafi til enda og leikmenn Sviss með frumkvæðið í hröðum leik.

Möguleikinn rann úr höndunum

Í lokin gafst hið gullna tækifæri til þess að stela sigrinum. Sú sókn var e.t.v. lýsandi fyrir leik íslenska liðsins í leiknum. Fjörutíu sekúndna sókn, þar af í 30 sekúndur manni fleiri, fór í handaskolum og endaði með neyðarskoti tveimur sekúndum fyrir leikslok eftir nokkra reikistefnu hvort sekúndurnar hafi verið tvær eða fjórar sem eftir voru.

Skýrist í kvöld

Í kvöld skýrist hvaða áhrif þessi úrslit hafa upp á framhaldið hafa hjá íslenska landsliðinu áður en það leikur sinn síðasta leik í milliriðlakeppninni á móti Slóvenum klukkan 14.30 á morgun. Alltént má segja að möguleikar íslenska landsliðsins á sæti í undanúrslitum séu ekki lengur í hendi þess.

Leikmenn svissneska liðsins léku hvað eftir annað vörn íslenska liðsins grátt. Fyrir vikið var heldur ekki markvarsla fyrir hendi.

Staðan í hálfleik var jöfn, 19:19.

Þegar kom fram í síðari hálfleik náði Sviss tveggja til þriggja marka forskoti sem íslenska liðið var að vinna upp allt til leiksloka.

Ótrúlegur munur

Ótrúlegur munur var á varnarleik íslenska landsliðsins að þessu sinni, samanborið við viðureignina við Svía í fyrrakvöld.

Glötuð tækifæri

Ofan á annað þá fóru mörg góð opin færi forgörðum af línu og úr hornum auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson markvörður hitti ekki opið mark Sviss í tvígang í síðari hálfleik. Einnig misstu menn boltann og ljóst virtist að spennustigið hafði einhver áhrif.

Flest var íslenska liðinu mótdrægt í leiknum frá byrjun til enda og lokasóknin rammaði e.t.v. inn leikinn.


Mörk Íslands: Orri Freyr Þorkelsson 8, Elliði Snær Viðarsson 8, Viggó Kristjánsson 7/3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Ómar Ingi Magnússon 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Janus Daði Smárason 2, Haukur Þrastarson 1, Einar Þorsteinn Ólafsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 8, 21,6% – Björgvin Páll Gústavsson 3, 27,3%.

EM 2026.

A-landslið karla.

Handbolti.is er í Malmö Arena og fylgdist með í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -