Sylvía Björt Blöndal hefur gert tveggja ára samning við FH og gengur til liðs við félagið fyrir næsta keppnistímabil. Sylvía, sem er 24 ára rétthent skytta, kemur til FH frá Danmörku þar sem hún hefur spilað handbolta meðfram meistaranámi.
Sylvía, sem er uppalin í FH, lék með Aftureldingu áður en hún fór erlendis og var m.a. næstmarkahæst í Olísdeild kvenna árið 2022 með 120 mörk og langmarkahæst í Grill 66 deild kvenna árið 2023 með 157 mörk í aðeins 16 leikjum.
„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Sylvíu til okkar í FH og bindum miklar vonir við hana,“ er haft eftir Ágústi Bjarna Garðarssyni, formanni handknattleiksdeildar FH, í tilkynningu.
„Sylvía er leikmaður sem við vorum að leitast eftir og lögðum mikla áherslu á að fá hana til okkar þegar við fréttum að hún væri á leið heim til Íslands. Hún mun styrkja liðið verulega á báðum endum vallarins enda bæði markaskorari og öflugur varnarmaður,“ er enn fremur haft eftir Ágústi Bjarna.



