„Afturelding gerði þetta mjög vel. Lék sjö á sex frá upphafi til enda og tókst að hægja mjög á hraða leiksins. Við að sama skapi voru sjálfum okkur verst með því að fara illa með mörg upplögð tækifæri, ekki síst framan af leiknum. Saga Sif markvörður, sem var hjá okkur, gerði okkur einnig lífið leitt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals við handbolta.is eftir sex marka sigur Vals á Aftureldingu, 29:23, að Varmá í síðasta leik sjöundu umferðar Olísdeildar kvenna i kvöld.
Eins og ótti gripi um sig
„Svo var eins og það gripi um sig ótti hjá leikmönnum mínum yfir að þeir myndu kannski ekki ná að vinna leikinn. Stelpurnar jöfnuðu sig á þessu og sýndu ákveðin gæði í leik sínum síðasta stundarfjórðunginn. Sóknarleikurinn batnaði og okkur tókst að vinna boltann nokkrum sinnum í vörninni og skorað auðveldari mörk,“ sagði Ágúst ennfremur en hann hafði í mörg horn að líta eins og endranær í kappleikjum.
Með leiknum í kvöld lauk fyrsta þriðjungi deildarkeppninnar. Ágúst Þór sagði vera nokkuð sáttur með niðurstöðuna, 12 stig í sjö leikjum.
Hefur verið bras á okkur
„Í þeim leikjum sem eru að baki hefði ég á tíðum viljað sjá betri frammistöðu. Það er bara eins og það er. Fram til þess hefur verið smá bras á okkur. Morgan Marie var eiginlega að koma inn í sinn fyrsta leik á tímabilinu í kvöld. Hildur er ekki orðinn hundrað prósent og Anna var veik í dag og Lilja hefur verið frá í síðustu tveimur eða þremur leikjum vegna meiðsla.
Við verðum bara að halda áfram okkar striki og bæta okkur jafnt og þétt í næstu leikjum og í gegnum tímabilið eins og við höfum gert á undanförnum árum.
Erfiður leikur framundan
Framundan er erfiður leikur við Fram á fimmtudaginn. Ljóst er að þá verðum við að leika mikið betur en í kvöld til þess að vinna,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í að Varmá í kvöld.
Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.