„Þetta var bara geggjað,“ sagði Össur Haraldsson leikmaður 20 ára landsliðs Íslands í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir fimm marka sigur íslenska landsliðsins á pólska landsliðinu, 37:32, í annarri umferð Evrópumótsins í Slóveníu í dag. Össur fór hamförum í sigurleiknum, skoraði 12 mörk í 13 tilraunum. Eftir sigurinn í dag stefnir í uppgjör íslensku piltanna við þá sænsku um efsta sæti riðilsins á laugardaginn. Efsta sætið veitir þátttökurétt í átta liða úrslit Evrópumótsins.
Kortlögðum þá vel
„Við vorum búnir að kortleggja pólska liðið mjög vel og vissum því vel hverslags liði við værum að fara að mæta. Það var búið að stúdera þá niður í döðlur og mér fannst flest virka fínt hjá okkur,“ sagði Össur.
Wait for the 𝗳𝗮𝘀𝘁𝗯𝗿𝗲𝗮𝗸 𝗳𝗶𝗻𝗶𝘀𝗵 🤩🍩💫 #ehfeuro2024 #handball @HSI_Iceland pic.twitter.com/WD5yZiDhqy
— EHF EURO (@EHFEURO) July 11, 2024
Héldu okkur engin bönd
„Eftir að við komumst á bragðið um miðjan síðari hálfleik þá héldu okkur engin bönd. Við vorum sérlega sterkir í sókninni í fyrri hálfleik. Nokkrar varnir hefðu mátt vera betri og kannski markvarslan líka. En þegar upp er staðið eftir 60 mínútur þá held ég að við höfum leikið mjög vel og ekki hægt að kvarta yfir miklu,“ sagði Össur en ekki síst á lokakaflanum sýndi íslenska liðið mikinn styrk þegar það náði mest sjö marka forskoti, 32:25, eftir að hafa skorað fimm mörk á skömmum tíma.
Frábær lokakafli
„Lokakafinn var frábær hjá okkur. Þá sýndum við geggjaðan karakter. Ísak [Steinsson] varði mikilvæga bolta á kafla þegar við vorum um skeið nokkrum sinnum manni færri. Á sama tíma var sóknarleikurinn yfirvegaður. Við lékum langar sóknir sem skiluðu mörkum sem var það besta í stöðunni verandi manni færri,“ sagði Össur ennfremur.
Herbergisfélagarnir ná vel saman
„Ég get ekki kvartað yfir eigin frammistöðu. Ég klúðraði einu skoti. Elmar [Erlingsson] var óspar að senda boltann á mig í hornið. Við herbergisfélagar náum góðri tengingu,“ sagði Össur léttur í bragði.
Fullir sjálfstrausts
Eins og fram hefur komið þá er framundan úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins við Svía á laugardaginn. Össur segir ekkert annað koma til greina en að leggja þá sænsku á laugardaginn. „Við erum fullir sjálfstrausts graðir í að ná efsta sætinu,“ sagði Össur Haraldsson leikmaður Hauka og U20 ára landsliðsins í sumrinu, sólinni og hitanum í Laskó inni í miðri Slóveníu.
Sjá einnig:
Mikill sóknarkraftur og orka í strákunum
Öruggur sigur á Pólverjum – uppgjör við Svía á laugardag
EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni