- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tækifæri til að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar

Aron Pálmarsson í leik með Barcelona gegn Kiel í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Barcelona og Kiel mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í Lanxess-Arena í Köln í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 og verður hægt að fylgjast með leiknum hér á landi í útsendingu Viaplay, eftir því sem næst verður komist. Liðin hafa unnið keppnina í tvígang hvort eftir að úrslitahelgarfyrirkomulagið var tekið upp 2010 og geta í kvöld orðið fyrst til þess að vinna í þriðja sinn eftir að breytingin átti sér stað. Eins getur Xavi Pascual komist í flokk með Alfreð Gíslasyni og tveimur öðrum sigursælum þjálfurum fari Barcelona með sigur af hólmi að þessu sinni.

Hér fyrir neðan eru nokkrar staðreyndir um úrslitaleikinn.

  • Barcelona og Kiel hafa leikið ellefu sinnum til úrslita í Meistaradeild Evrópu. Barcelona hefur unnið keppnina átta sinnum, síðast 2015. Guðjón Valur Sigurðsson lék með Kiel á þeim tíma. Kiel hefur unnið í þrjú skipti, síðast 2012. Aron Pálmarsson var þá leikmaður Kiel og Alfreð Gíslason þjálfaði liðið.
  • Barcelona vann PSG í gær, 37:32, í undanúrslitum. Kiel lagði Veszprém, 36:35, í framlengdum undanúrslitaleik.
  • Viðureign Barcelona og Kiel verður 28. innbyrðis viðureign liðanna en aðeins í annað sinn sem þau mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Tíu ár eru liðin frá eina úrslitaleik liðanna til þessa. Kiel vann leikinn, 36:34.
  • Aðeins einn leikmaður sem tók þátt í úrslitaleiknum fyrir tíu árum verður í eldlínunni í úrslitaleiknum í dag. Um er að ræða Aron Pálmarsson, leikmann Barcelona.
  • Filip Jicha, þjálfari Kiel, var leikmaður liðsins fyrir tíu árum og var markahæstur í úrslitaleiknum með 11 mörk. Jicha getur í kvöld unnið sinn fyrsta alþjóðalega titil sem þjálfari en hann stýrði Kiel til sigurs í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari.
  • Jicha var einnig um skeið leikmaður Barcelona undir lok ferils síns sem handknattleiksmaður áður en hann sneri sér að þjálfun. Sigurlið úrslitaleiksins í kvöld verður það fyrsta til þess að vinna Meistaradeildina í þriðja sinn eftir að Final4 úrslitakeppnin var tekin upp leiktíðina 2009/2010. Kiel vann 2010 og 2012. Barcelona 2011 og 2015.
  • Ef Barcelona vinnur úrslitaleikinn verður Xavi Pascual, þjálfari liðsins, fjórði þjálfarinn til að stýra liði til sigurs í Meistaradeild Evrópu í að minnsta kosti þriðja sinn. Hinir eru Valero Rivera sem hefur unnið keppnina fimm sinnum sem þjálfari, Talant Dujshebaev hefur unnið deildina í fjögur skipti og Alfreð Gíslason í þrisvar sinnum.
  • Aitor Arino, Raul Entrerrios, Gonzalo Perez des Vargas og Cedric Sorhaindo geta unnið Meistaradeildina í þriðja sinn með Barcelona. Eins getur Aron Pálmarsson unnið keppnina í þriðja sinn á ferlinum en hann var í sigurliði Kiel 2010 og 2012.
  • Tveir leikmenn Kiel í kvöld hafa unnið Meistaradeildina áður, þó ekki með Kiel. Domagoj Duvnjak var í sigurliði HSV Hamburg 2013 og Steffen Weinhold var í sigurliði Flensburg árið eftir. Flensburg vann þá Kiel í úrslitaleik.
  • Frá því að Meistaradeild Evrópu var sett á laggirnar keppnistímabilið 1993/1994 hefur Barcelona leikið 319 leiki, unnið 242, gert 20 jafntefli og tapað 57 leiki. Ekkert lið í keppninni hefur hærra sigurhlutafall.
  • Kiel leikur í kvöld sinn 300. leik í Meistaradeild Evrópu frá 1993. Af þeim hafa 197 unnist, 21 endað með jafntefli og 81 tapast.
  • Aron Pálmarsson vann Meistaradeild Evrópu 2010 og 2012 með THW Kiel.
    Aron fékk silfur 2016 með Veszprém, brons með sama liði 2017 og brons með Barcelona 2019.
  • Ólafur Gústafsson vann Meistaradeild Evrópu 2014 með Flensburg.
  • Guðjón Vaur Sigurðsson vann Meistaradeild Evrópu 2015 með Barcelona. Guðjón Valur hlaut silfurverðlaun 2014 með Kiel.
  • Ólafur Stefánsson vann Meistaradeild Evrópu með Magdeburg 2002, og Ciudad Real 2006, 2008, 2009. Einnig hlaut hann silfur 2005 með Ciudad Real.
  • Alfreð Gíslason er eini íslenski þjálfarinn sem hefur unnið Meistaradeildina, 2002 með Magdeburg og 2010 og 2012 með Kiel. Bæði tímabilin tapaði liði bara einum leik í deildinni hvort tímabil. Alfreð bætti silfri í safnið sem þjálfari Kiel 2014.
  • Í kvöld verður styttan sem fylgt hefur Meistaradeild karla síðasta áratuginn afhent í síðasta sinn. Styttan er eftirlíking af handlegg sem heldur á handbolta.
  • Nýr verðlaunagripur verður tekinn í gagnið í vor þegar keppninni fyrir leiktíðina 2020/2021 lýkur. Um leið verða eins verðlaunagripir teknir upp fyrir Meistaradeild karla og kvenna. Mynd af nýju gripunum er hér fyrir neðan.
Glæsilegir verðlaunagripir í Meistaradeild karla og kvenna í handknattleik frá og með keppnistímabilinu 2020/2021. Ljósmynd/EHF
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -