„Þetta er svo fallegt og flott,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir annar markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik spurð um þann mikla stuðning sem landsliðið hefur fengið frá Sérsveitinni og á annað hundrað Íslendingum sem lagt hafa leið til Stafangurs í þeim tilgangi að styðja við bakið á landsliðinu á heimsmeistaramótinu.
„Við finnum svo mikið fyrir stuðningnum inni á leikvellinum. Ég vil fyrir hönd okkar í landsliðinu þakka öllum kærlega fyrir að hafa komið og tekið slaginn með okkur. Stuðningurinn hefur verið algjörlega ómetanlegur. Takk æðislega fyrir að hjálpa okkur,“ sagði Elín Jóna við handbolta.is í gær eftir viðureignina við Frakka hvar hún fór á kostum.
Íslenski stuðningsmannahópurinn hefur vakið verðskuldaða athygli á leikjunum til þessa. Hópurinn fer fyrir kraftmiklum söng þegar lofsöngurinn hljómar og væri eflaust til í að syngja öll erindin ef tækifæri væri á og slær svo ekki af við hvatningu, trommuslátt og lúðrablástur frá upphafi til enda á leikjum, sama hvernig gengur inni á vellinum.