Liðlega 434 þúsund króna tap var á rekstri Snasabrúnar ehf, útgefanda handbolti.is, árið 2022. Um er að ræða heldur skárri niðurstöðu en árið áður þegar tapið nam um 591 þúsund krónum.
Tekjur drógust saman milli áranna 2021 og 2022 og námu 9,1 milljón kr. Munaði þar mestu um samdrátt í auglýsingatekjum. Tekjur af sölu auglýsinga námu rúmlega 7,4 milljónum kr. í stað um 8,3 milljóna árið áður. Hluti auglýsinganna var seldur í verktöku bæði árin og hefur hlutur verktaka ekki verið dreginn af fyrrgreindum upphæðum.
Framlög lesenda og velunnara hækkuðu lítillega árið 2022 frá árinu á undan, og héldu í við hækkun verðlags, þrátt fyrir fækkun í hópi velunnara.
Laun og launatengd gjöld námu liðlega 4,8 milljónum króna og dróst launakostnaður saman um 150 þúsund krónur. Eitt stöðugildi var við útgáfuna árið 2022 eins og árið á undan.
Langtímaskuldir voru engar í árslok og eiginfjárstaða sæmileg.
Snasabrún ehf sótti um rekstrarstuðning vegna einkarekinna fjölmiðla en fékk synjun með þeim rökum að starfsmenn væru ekki nægilega margir.
Árið 2022 var annað heila starfsár Snasabrúnar ehf við rekstur handbolti.is sem opnaður var 3. september 2020.
Handbolti.is fékk liðlega 1,2 milljónir heimsókna árið 2022. Flettingar voru rúmlega 2,3 milljónir. Heimsóknum og flettingum fjölgaði 2022 um 45 og 50% frá árinu 2021.
Áframhaldandi vöxtur hefur verið í lestri og flettingum á þessu ári svo nemur tugum prósenta. Þar af leiðandi ríkir bærileg bjartsýni hjá eigendum þrátt fyrir harðlífi á auglýsingamarkaði.
Kristín B. Reynisdóttir og Ívar Benediktsson eiga Snasabrún ehf, útgefanda handbolta.is.