Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði fyrir færeyska landsliðinu í fyrstu umferð undankeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik í Lambhagahöllinni í kvöld, 24:22. Þetta er fyrsta tap íslensks A-landsliðs í handknattleik fyrir Færeyingum í mótsleik. Færeyingar voru öflugri frá upphafi til enda. Sóknarleikur, þá sérstaklega nýting á færum var afar slök hjá íslenska landsliðinu og kom því í koll frá byrjun til enda. Staðan í hálfleik var 11:11.
Næsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn portúgalska landsliðinu ytra á sunnudaginn klukkan 16.
Fyrsti stundarfjórðunginn gekk hvorki né rak í sóknarleik íslenska liðsins. Framan af var leikurinn hægur en þegar á leið sköpuðust afar góð marktækifæri sem ekki tókst að nýta. Þegar Arnar Pétursson landsliðsþjálfari tók leikhlé eftir liðlega 15 mínútur hafði íslenska liðið aðeins skoraði þrjú mörk, staðan var 7:3, Færeyingum í vil.
Fjögur mörk í röð á hálfri þriðju mínútu eftir leikhléið og staðan var orðin jöfn, 7:7.
Þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleik komst Ísland yfir í fyrsta sinn með öðru marki Elínar Klöru Þorkelsdóttur í röð, 11:10.


Hafdís Renötudóttir markvörður var besti leikmaður íslenska landsliðsins í leiknum. Ljósmyndir/Hafliði Breiðfjörð
Hafdís Renötudóttir átti stórleik í fyrri hálfleik í markinu og hélt íslenska liðinu inni í leiknum þegar verst gekk. Hún varð 10 skot, tæplega 50% auk þess að vera hársbreidd frá því að skora á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks og koma Íslandi yfir á nýjan leik.
Staðan var jöfn í hálfleik, 11:11.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri hjá íslenska liðinu með handbakargangi í sóknarleiknum. Íslenska liðið skoraði aðeins þrjú mörk á fyrstu 10 mínútunum, þar af tvö á tveimur mínútum. Áfram hélt Hafdís markvörður íslenska liðinu inni í leiknum og aftur náði íslenska liðið að komast inn í leikinn og ná yfirhöndinni í fyrsta sinn í hálfleik, 17:16, þegar 16 mínútur voru til leiksloka. Færeyska liðið svaraði að bragði með fimm mörkum í röð, 21:17. Segja má að eftir þar með hafi möguleikarnir á sigri gengið íslenska liðinu alveg úr greipum.

Áfram var sóknarleikurinn Akkilesarhæll íslenska landsliðsins og þá ekki síst nýtingin á marktækifærum. Sú staðreynd varð íslenska liðinu fyrst og fremst að falli þegar upp var staðið.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Sandra Erlingsdóttir 3, Elína Rósa Magnúsdóttir 2, Dana Björg Guðmundsdóttir 2, Andrea Jacobsen 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 38,4%.
Mörk Færeyja: Jana Mittún 7, Pernille Brandenborg 6, Súna Krossteig Hansen 4, Rannvá Olsen 2, Liv Bentsdóttir Zachariasen 1, Maria Pálsdóttir Nólsoy 1, Liv Sveinbjørnsdóttir Poulsen 1, Anna Elisabeth Halsdóttir Weyhe 1, Maria Halsdottir Weyhe 1.
Varin skot: Rakul Wardum 6, 29% – Gylta Djurhuus á Neystabø 3, 30%.
Undankeppni EM kvenna ”26: Úrslit leikja