- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Teitur Örn fór heim með gullið úr Evrópudeildinni

Flensburg-Handewitt, sigurlið Evrópudeildarinnar í handknattleik karla. EHF/kolektiff
- Auglýsing -

Teitur Örn Einarsson varð í dag Evrópudeildarmeistari í handknattleik karla með Flensburg-Handewitt þegar liðið vann Füchse Berlin í úrslitaleik, 36:31. Leikurinn fór fram í Hamborg. Þetta var fyrsti sigur Flensburg í einhverju Evrópumóta félagsliða í áratug eða síðan liðið vann Kiel í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Um leið voru gullverðlaunin í dag þau fyrstu sem Teitur Örn hreppir í Evrópukeppni félagsliða og bætist hann þar með í ört vaxandi hóp íslenskra handknattleiksmanna sem hafa verið í sigurliðum í einhverju af Evrópumótum félagsliða allt síðan Kristján Arason vann fyrsta gullpeninginn með Teka Santander fyrir 34 árum.

Füchse Berlin vann keppnina fyrir ári og þótti alveg eins líklegt til að endurtaka leikinn í dag. Af því varð ekki. Flensburg liðið var öflugra í síðari hálfleik eftir eins marks forskot í hálfleik, 16:15.

Teitur Örn t.v. fagnar með samherjum sínum í dag þegar búið var að taka á móti sigurlaununum. Ljósmynd/EHF/kolektiff

Teitur Örn skoraði eitt mark í leiknum. Emil Jakobsen skoraði sjö fyrir Flensburg. Simon Pytlick, Lukas Lindhard Jørgensen og Lasse Kjær Möller skoruðu sex mörk hver. Kevin Møller varði 13 skot í markinu, 32%.

Jerry Tollbring skoraði sjö mörk fyrir Füchse Berlin. Mathias Gidsel var næstur með sex mörk. Lasse Bredekjaer Andersson skoraði fimm sinnum eins og Hans Lindberg. Dejan Milosavljev náði sér ekki á strik í marki Füchse Berlin eftir að hafa átt stórleik í undanúrslitum gegn Rhein-Neckar Löwen í gær.

Ýmir hreppti brons

Ýmir Örn Gíslason og liðsmenn Rhein Neckar Löwen hrepptu bronsverðlaun í Evrópudeildinni. Þeir lögðu Dinamo Búkarest í fyrri leik dagsins í Barclays Arena í Hamborg, 32:31. Ýmir Örn lék að vanda með liðinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -