Teitur Örn Einarsson lék afar vel fyrir Flensburg í gær þegar liðið vann HSV Hamburg með 10 marka mun á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 33:23. Teitur Örn skoraði sex mörk í sjö skotum og átti einnig eina stoðsendingu. Hann var næst markahæsti leikmaður Flensburg í leiknum.
Svíinn Hampus Wanne var markahæstur hjá Flensburg með átta mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Annar hornamaður, Daninn Casper Mortensen, var markahæstur hjá Hamborgarliðinu með sjö mörk.
Flensburg er í fjórða sæti deildarinnar með 42 stig eftir 27 leiki og er jafnt Füchse Berlin að stigum. Síðarnefnda liðið á leik til góða í dag á móti toppliði Magdeburg.
Lemgo, liði Bjarka Más Elíssonar, tapaði á heimavelli fyrir HC Erlangen þar sem Ólafur Stefánsson er nú aðstoðarþjálfari, 33:27. Bjarki Már skoraði átta mörk og var næst markahæstur leikmanna Lemgo. Tvö marka sinna skoraði Bjarki Már úr vítaköstum.
Bjarki Már er næst markahæstur í þýsku 1. deildinni með 179 mörk. Hans Lindberg hjá Füchse Berlin hefur skoraði tveimur mörkum fleira. Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg, er þriðji með 173 mörk.
Staðan í þýsku 1. deildinni: