Tekjufall handknattleiksliða vegna kórónuveirufaraldursins er farinn að segja til sín víða enda hafa félög verið án verulegs hluta tekna sinna í hálft annað ár m.a. vegna þess að áhorfendum hefur ekki verið heimilt að mæta í keppnishallirnar. Af þessum ástæðum hafa nokkur evrópsk félagslið ákveðið að taka ekki þátt í Evrópukeppni félagsliða á næsta keppnistímabili eða að taka þátt í þeim mótum á vegum Handknattleikssambands Evrópu þar sem útgjöld og kröfur eru minni.
Dönsku liðin København Håndbold og Nykøbing Falsters eru í þessum hópi. Bæði hafa afþakkað þátttöku í Evrópudeildinni í handknattleik kvenna, næst sterkustu Evrópukeppninni, á eftir Meistaradeildinni. Báðum liðum var boðinn sérstakur keppnisréttur, svokallað wild card.
„Við höfum ekki efni á að taka þátt eftir að hafa verið án áhorfendatekna um langt skeið,“ segir Søren Jacobsen einn stjórnenda Nykøbing Falsters í samtali við TV2 í Danmörku. Jacobsen reiknar með að kostnaður við þátttöku liðsins í Evrópudeildinni verði ekki undir 16 milljónum króna.
„Þess utan þá er keppnishöllin okkar ekki lögleg fyrir leiki í Evrópudeildinni,“ segir Jacobsen og bætir við að sú staðreynd þýddi að liðið yrði að leita annað með heimaleiki sína í Evrópudeildinni með tilheyrandi viðbótar kostnaði.
Casper Porsgaard, stjórnandi hjá København Håndbold segir að þrátt fyrir ríkan vilja til að vera með í Evrópudeildinni þá séu óvissuþættirnar alltof margir um þessar mundir til að réttlætanlegt sé að leggja út í þann kostnað sem þátttökunni fylgi. Fyrir utan ferðakostnað þá gerir EHF kröfur um að sérstakur dúkur sé á keppnisgólfum í leikjum Evrópudeildarinnar og LED-auglýsingaskilti séu allan hringinn í keppnishúsunum. Porsgaard segir þennan og annan kostnað því miður ekki forsvaranlega við núverandi aðstæður. Þátttakan verði að bíða betri tíma.