- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tékkinn reið baggamuninn – Kiel vann meistarakeppnina

Tomáš Mrkva markvörður Kiel og tékkneska landsliðsins í leik Íslands og Tékklands í Laugardalshöll í mars. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

THW Kiel er meistari meistaranna í Þýskalandi eftir sigur á Rhein-Neckar Löwen, 37:36, í PSD Bank Dome í Düsseldorf í kvöld þegar meistarar síðasta árs og bikarmeistarar mættust í árlegri viðureign sem markar upphaf leiktíðarinnar þar eins og víða annarstaðar.

Grípa varð til vítakeppni til þess að knýja fram úrslit eftir að staðan var jöfn, 32:32, að loknum 60 mínútum. Tékkneski landsliðsmarkvörðurinn Tomas Mrkva varði tvö vítaköst frá leikmönnum Löwen í vítakeppninni.

Mrkva fór illa með Knorr

Svíinn Niclas Ekberg jafnaði metin fyrir Kiel á síðustu sekúndu leiksins, 32:32, eftir að Mrkva hafði varið vítakast frá Juri Knorr leikmanni Rhein-Neckar Löwen 11 sekúndum fyrir leikslok þegar staðan var 32:31 fyrir Löwen. Mrkva endurtók svo leikinn og jók á óhamingju Knorr með því að verja frá honum í fyrstu umferð vítakeppninnar.

Arnór Snær Óskarsson, sem gekk til liðs við Rhein-Neckar Löwen í sumar, var í leikmannahópi liðsins en kom ekkert við sögu. Ýmir Örn Gíslason var að vanda aðalmaðurinn í varnarleik liðsins en hafði lítil afskipti af sóknarleiknum.

Fóru illa að ráði sínu

Viðureignin var hnífjöfn og æsispennandi frá upphafi til enda. Að loknum fyrri hálfleik var jafnt, 16:16. Löwen náðu frumkvæðinu á síðustu mínútum venjulegs leiktíma en leikmenn liðsins fóru illa að ráði sínu í tveimur síðustu sóknunum. Daninn Niclas Kirkeløkke lék sig í vandræði og átti ótímabært skot á markið 45 sekúndum fyrir leikslok í stöðunni 32:31, og síðan Knorr í sömu stöðu þegar hann tók vítakastið sem Mrkva varði 11 sekúndum áður en leiktíminn var úti. Í millitíðinni varði Joel Birlehm vítakast frá Niclas Ekberg leikmanni Kiel.

Patrick Wiencek og Harald Reinkind skoruðu átta mörk hvor fyrir Kiel. Patrick Groetzki og Jannik Kohlbacher skoruðu sjö mörk hvor fyrir Löwen og voru markahæstir.

Markvörður heimsmeistaraliðis Þýskalands 21 árs og yngri, David Späth, átti stórleik í marki Rhein-Neckar Löwen en fékk flestum að óvörum ekkert að spreyta sig á að verja vítakast þegar kom að vítakeppninni.

Fyrstu leikir á morgun

Keppni í þýsku 1. deildinni hefst á morgun með tveimur leikjum sem hefjast klukkan 17. Erlangen fær Hannover-Burgdorf í heimsókn og HSV Hamburg sækir Flensburg heim.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -