Berglind Þorsteinsdóttir landsliðskona og leikmaður Fram hefur ákveðið að taka sér tímabundið frí frá handbolta og flytja til Þýskalands í sumar. Þrálát hnémeiðsli eru meginástæða. „Ég er alls ekki að hætta í handbolta, aðeins að taka mér frí, hvíla hnéið og ná mér góðri,“ sagði Berglind í samtali við handbolta.is í morgun.
„Ég þarf bara að gefa mér tíma til þess að ná bata. Frá 2018 hef ég farið í þrjár aðgerðir á sama hnénu, síðast í fyrrasumar, og aldrei náð mér fullkomlega góðri. Ég finn alltaf fyrir verk. Ég get svo sem haldið áfram en maður nýtur þess bara ekki eins vel að leika með sífellda verki,“ sagði Berglind ennfremur og leggur áherslu á að hún ætli ekki að binda enda á ferlinn enda aðeins 26 ára gömul og full af eldmóði og áhuga.

35 landsleikir – tvö stórmót
Berglind hefur leikið 35 landsleiki og tekið þátt í tveimur síðustu stórmótum með landsliðnu, HM 2023 og EM 2024. Hún gekk til liðs við Fram fyrir tveimur árum eftir að hafa leikið með HK í yngri flokkum upp í meistaraflokk.
Gott samtal við Adda
„Ákvörðunin um að taka frí var mjög erfið. Ég var lengi að velta þessu fyrir mér en steig skrefið fyrir þremur vikum en hef ekki haft hátt um það meðan við Framararnir vorum ennþá með í keppninni á Íslandsmótinu. Ég hef rætt hana mjög vel í Adda [Arnar Pétursson þjálfara landsliðsins og Fram]. Það er gott að ræða við Adda og hann sýnt mér mikinn skilning,“ sagði Berglind sem ekki aðeins ætlar að kveðja handboltavöllinn um skeið heldur einnig vinnustaðinn en Berglind er hjúkrunarfræðingur á Landspítlanum.
Flytur til Frankfurt
Berglind flytur til Þýskalands í sumar til unnusta síns sem býr og starfar í Frankfurt í Þýskalandi. „Það verður gott að skipta um umhverfi og dreifa huganum meðan maður er ná sér góðri í hnénu,“ sagði Berglind Þorsteinsdóttir handknattleikskona í samtali við handbolta.is.