Ísland og Svíþjóð skildu jöfn, 31:31, í fyrri vináttuleik þjóðanna í handknattleik karla í Kristianstad Arena í Svíþjóð í kvöld. Staðan í hálfleik var einnig jöfn, 16:16. Svíar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og íslenska liðinu tókst ekki að skora úr lokasókn sinni á síðustu 25 sekúndunum. Sjö tíu og fimm sekúndum fyrir leikslok, í stöðunni, 30:31 fyrir Ísland átti Gísli Þorgeir Kristjánsson skot í stöng úr opnu færi og gat komið íslenska liðinu tveimur mörkum yfir.
Högg aftan í vinstra læri
Áhyggjumál er eftir leikinn að Arnar Freyr Arnarsson fékk högg á aftanvert vinstra læri rétt fyrir miðjan síðari hálfleik. Meiðsli sem geta sett verulegt strik í reikninginn fyrir hann og Snorra Stein Guðjónsson landsliðsþjálfara séu meiðslin alvarleg sem því miður er ekki óvarlegt að telja.
Sjá einnig: Margir fínir kaflar en eitt og annað sem þarf að laga
Hratt og skemmtilegt
Viðureignin var jöfn og skemmtileg á að horfa. Mikill hraði var í leiknum frá upphafi til enda. Afar góðir kaflar voru í vörn og sókn hjá íslenska liðinu.
Viggó Kristjánsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson fóru mikinn í sóknarleiknum auk þess sem Arnar Freyr hafði unnið sig jafnt og þétt inn í leikinn í stöðu línumanns áður en hann meiddist. Lítið fór fyrir hornaspili. Vinstri hornamennirnir, Orri Freyr Þorkelsson og Bjarki Már Elísson skiluðu sjö mörkun en fáum úr vinstra horninu sjálfu. Sigvaldi Björn Guðjónsson og Óðinn Þór Ríkharðsson komust aldrei í takt við leikinn.
Fyrirliði í fyrsta sinn – sá rautt!
Elliði Snær Viðarsson var fyrirliði í leiknum í fjarveru Arons. Elliði Snær fékk rautt spjald eftir 20 mínútur. Var dómurinn nokkuð harður. Elliði Snær varðist með hendi niður með síðum og einn sænsku leikmannanna skall á hægri upphandlegg Elliða. Vafalaust eitthvað samkvæmt bókstafnum en brotið var ekki viljandi.
Af 17 leikmönnum þá tefldi Snorri Steinn fram 15 í leiknum. Sá sextándi, Þorsteinn Leó Gunnarsson, tók aukakast eftir að leiktíminn var úti. Einar Þorsteinn Ólafsson kom ekkert við sögu. Markverðirnir skiptu leiknum jafnt á milli sín og sömu sögu er að segja um hornamennina.
Eina vítakastið sem íslenska liðið fékk í leiknum var varið af Andreas Palicka í fyrri hálfleik.
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 6, Orri Freyr Þorkelsson 5, Arnar Freyr Arnarsson 4, Elvar Örn Jónsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Ýmir Örn Gíslason 3, Bjarki Már Elísson 2, Haukur Þrastarson 2, Elliði Snær Viðarsson 1, Janus Daði Smárason 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 5, Björgvin Páll Gústavsson 5.
Mörk Svíþjóðar: Hampus Wanne 9, Eric Johansson 5, Felix Möller 4, Albin Lagergren 4, Jonathan Carlsbogård 3, Lukas Sandell 3, Lucas Pellas 1, Jim Gottfridsson 1, Olle Forsell Schefvert 1.
Handbolti.is fylgdist með viðureigninni í Kristianstad í textalýsingu hér fyrir neðan.