- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Allt annað og mikið betra – tveggja marka sigur í München

- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann þýska landsliðið í síðari vináttuleiknum í SAP Garden í München síðdegis í dag, 31:29, eftir að hafa verið marki yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki. Forskot Íslands var eitt mark eftir fyrri hálfleik, 16:15. Allt annað var að sjá til íslenska landsliðsins í leiknum í dag en á fimmtudaginn.


Íslenska Liðið lék af mikilli yfirvegun jafnt í vörn sem sókn og hafði yfirhöndina í 45 til 50 mínútur gegn Þjóðverjum sem sjaldan tapa á heimavelli. Sigurinn var svo sannarlega verðskuldaður og frammistaðan undirstrikaði að ekki var ástæða til þess að telja liðið af eða hrapa að ályktunum eftir fyrri viðureignina.

Þjóðverjar voru yfir fyrstu 10 til 12 mínúturnar áður en íslensku piltarnir tóku við. Þeir sneru við taflinu með miklum ákafa í varnarleiknum og afar góðri frammistöðu Björgvins Páls Gústavssonar markvarðar.

Mest var forskot íslenska liðið fjögur mörk síðla í fyrri hálfleik. Þjóðverjar skoruðu þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og munaði einu marki eftir 30 mínútur, 16:15, fyrir Ísland.

Íslenska liðið hélt yfirhöndinni allan síðari hálfleik. Þýska liðinu tókst að jafna í nokkur skipti en aldrei að komast yfir.

Varnarleikurinn var mjög góður allan leikinn. Þjóðverjar komust ekki upp með sömu ákefð og á fimmtudaginn. Einnig skiluðu leikmenn sér mun betur til baka.

Sóknarleikurinn gekk mjög vel og var lengst af undir stjórn Gísla Þorgeirs Kristjánssonar sem fór á kostum. Hann lék eflaust einn sinn besta landsleik og sýndi einn af þeim leikjum sem ekki er óalgengt að sjá hann leika með félagsliði sínu, SC Magdeburg. Fleiri stóðu sig afar vel, jafnt í vörn sem sókn.


Mörk Íslands: Óðinn Þór Ríkharðsson 8, Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Ómar Ingi Magnússon 4/3, Elvar Örn Jónsson 3, Orri Freyr Þorkelsson 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Stiven Tobar Valencia 2, Viggó Kristjánsson 1/1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 7/1, 31,8% – Viktor Gísli Hallgrímsson 5, 26,3%.

Mörk Þýskalands: Marko Grgic 6, Julian Köster 5, Tim Freihofer 5/1, Franz Semper 3, Johannes Golla 2, Mathis Häseler 2, Miro Schluroff 2, Jannik Kohlbacher 2, Lukas Zerbe 1, Juri Knorr 1.
Varin skot: David Späth 10, 25% – Andreas Wolff 0.
Áhorfendur: 10.299.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -