Fram varð í kvöld Íslandsmeistari í 11. sinn í handknattleik karla með sigri á Val, 28:27, í N1-höllinni á Hlíðarenda að viðstöddum 1.500 áhorfendum. Fram vann þar með úrslitarimmuna, 3:0 í vinningum talið. Þetta er í sjöunda sinn á öldinni sem lið vinnur úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn með hreinu borði.
Fram vann síðast Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla árið 2013 og þá einnig með Einar Jónsson við stjórnvölin. Hann kom heim fyrir fjórum árum til þess að vinna úr efniviði félagsins. Markinu náði Einar svo um munaði á tímabilinu því Fram vann einnig bikarmeistaratitilinn eftir aldarfjórðungs bið.
2004: Haukar - Valur 3:0.
2005: Haukar - ÍBV 3:0.
2012: HK - FH 3:0.
2015: Haukar - Afturelding 3:0.
2021: Valur - Haukar 2:0.
2025: Fram - Valur 3:0.
Úrslitarimman var stytt vorið 2021 vegna covid.
Leikurinn í kvöld var jafn og skemmtilegur frá byrjun til enda. Valsmenn voru öflugri framan af en síðustu mínútur fyrri hálfleiks voru Framara. Þeir voru tveimur mörkum yfir að honum loknum, 15:13.
Í síðari hálfleik var viðureignin áfram í járnum lengst af. Framarar virtust vera að ná yfirhöndinni þegar Valur jafnaði metin og gat komist yfir. Ónákvæni kom í veg fyrir að Valur næði frumkvæðinu. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson tryggði Fram sigurinn fjórum sekúndum fyrir leikslok, 28:27. Fór vel á því vegna þess að skömmu áður hafði Björgvin Páll Gústavsson séð við Þorsteini í opnu færi.
Vart verður um það deilt að lið sem vinnur andstæðing sinn í 3:0 í úrslitarimmu er verðskuldaður Íslandsmeistari. Ungt lið Fram með nokkrum reynslumönnum stóðst allt álag, jafnt í úrslitakeppninni sem og í bikarkeppninni.
Mörk Vals: Ísak Gústafsson 8/2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 7/5, Andri Finnsson 3, Bjarni í Selvindi 3, Viktor Sigurðsson 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Magnús Óli Magnússon 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14, 34,1%.
Mörk Fram: Theodór Sigurðsson 6/3, Rúnar Kárason 5, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Reynir Þór Stefánsson 4, Erlendur Guðmundsson 2, Eiður Rafn Valsson 2, Tryggvi Garðar Jónsson 1, Marel Baldvinsson 1, Magnús Öder Einarsson 1, Ólafur Jóhann Magnússon 1, Kjartan Þór Júlíusson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 9, 30% – Breki Hrafn Árnason 1, 16,7%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is er á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.