„Það er bara algjör veisla að ná þessu bronsi,“ sagði markvörðurinn Brynjar Vignir Sigurjónsson einn markvarða íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is eftir að liðið vann Serba í úrslitaleiknum og bronsverðalunin á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Þýskalandi í dag.
„Ég var hrikalega þungur eftir leikinn í gær í undanúrslitum við Ungverja. Mér fannst ég standa í skuld við liðið. Ég var fínn í dag og við sem lið náðum okkur í gang eftir því sem á leikinn leið. Okkur langar svo mikið til að vinna. Þegar upp er staðið þá tókst það,“ sagði markvörðurinn sem var með 40% hlutfallsmarkvörslu og hélt liðinu inni í leiknum til dæmis í fyrri hálfleik þegar á brattann var að sækja.
Ætlum að fagna vel
„Ég er í skýjunum. Það var geggjað að klára þetta með eftirminnilegum hætti – bronsi á HM. Við ætlum svo sannarlega að fagna vel,“ sagði Brynjar Vignir Sigurjónsson markvörður sem var að ljúka sínu þriðja stórmóti á þremur árum með þessum hópi félaga sinna sem hann segir sína bestu vini.