„Við áttum í mestu erfiðleikum með að skora í síðari hálfleik og einnig á kafla í fyrri hálfleik,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í Innsbruck í kvöld eftir að íslenska landsliðið tapði með 11 marka mun fyrir Þýskalandi í lokaumferð F-riðils Evrópumótsins. Tapið veldur því að íslenska landsliðið er úr leik.
Arnar sagði það ekki hafa komið í opna skjöldu að bakverðir þýsku varnarinnar mættu sóknarmönnum Íslands mjög framarlega. „Okkur tókst einfaldlega ekki að leysa úr því,“ sagði Arnar sem gerði sér vonir um góðar upphafsmínútur myndu vera það sem koma skildi en sú varð ekki raunin.
„Þýska liðið er afar öflugt. Sóknarleikurinn var í brasi og fyrir vikið þá neyddumst við til að taka of mikið af neyðarskotum eða fara í neyðarfæri sem skiluðu ekki mörkum en í staðinn fengum við talsvert af auðveldum mörkum á okkur sem varð til þess að munurinn varð of mikill,“ sagði Arnar.
Eigum ennþá nokkuð í land
„Við erum að taka þátt í okkar fyrsta Evrópumóti í 12 ár. Við verðum bara að horfast í augu við þá staðreynd að við eigum nokkuð í land þegar kemur að því að standast bestu liðum heims snúning þótt við séum sátt við margt sem við gerðum á þessu móti. Leikurinn gegn Hollandi var mjög góður og síðan unnum við okkar fyrsta sigur á EM,“ sagði Arnar sem er viss um að leikmenn og þjálfarar muni taka marg gott út úr mótinu þótt vonbrigðin séu talsverð með leikinn í kvöld.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Arnar inni í þessari grein.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða