„Þetta var langur dagur hjá okkur en aðalatriðið er það að við erum komin til Stuttgart. Vel var tekið á móti okkur og það fer vel um okkur,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is í gærkvöld þegar Arnar og leikmenn íslenska landsliðsins höfðu komið sér fyrir á hóteli í Stuttgart eftir langan dag.
Ferðin varð lengri
Fyrst var flogið frá Færeyjum til Luxemborgar en þaðan ekið í langferðabíl til Stuttgart. Ferðin varð tvöfalt lengri í tíma en reiknað var með, m.a. spilaði inn í hvíldartími bílstjóra langferðabifreiðarinnar. Hann varð að taka sér hlé frá vinnu á leiðinni vegna reglna um hvíldartíma.
Allt hafðist þetta og landsliðskonurnar, þjálfarar og starfsfólk komu til Stuttgart um klukkan 19 í gærkvöld.
Uppselt á fyrsta leikinn
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á HM verður á morgun, miðvikudag, gegn Þýskalandi í Porsche Arena í Stuttgart. Uppselt er á leikinn en Porsche Arena rúmar um 6 þúsund áhorfendur.
Góð ferð til Færeyja
Arnar sagði ferðina og leikinn við Færeyjar hafi skilað árangri. „Við sáum framfarir í þeirri vinnu sem við erum í og fengum fullt af svörum en einnig staðreyndum sem við höldum áfram að vinna í. Fyrst og fremst fengum við mikilvægan og góðan leik,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari.
Lengra viðtal við Arnar er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Fleira efni:
HM kvenna ”25 – dagskrá, riðlakeppni
Landslið Íslands á HM kvenna 2025
A-landslið kvenna – fréttasíða.


