„Við byrjuðum að hökta í sóknarleiknum í lok fyrri hálfleiks en náðum okkur vel á strik framan af síðari hálfleik, ekki síst nýttum við yfirtöluna vel. Eftir það duttum við aftur úr takt í sókninni. Í vörninni þá fengu spænsku línumennirnir að hlaupa um allt og okkur tókst ekki að leggja stein í götu þeirra,“ sagði Sandra Erlingsdóttir fyrirliði landsliðsins eftir sjö marka tap, 30:23, fyrir Spáni í kvöld. Síðustu 20 mínútur leiksins réði íslenska landsliðið ekki neitt við neitt, jafnt í vörn sem sókn.
Ekki nóg að vera flottar í 30 mínútur
„Það hrundi allt hjá okkur. Síðan fór spænski markvörðurinn að verja vel, meðal annars varði hún tvö vítaköst frá mér. Við vorum flottar fyrstu 30 mínúturnar. Það er bara alls ekki nóg í handbolta,“ sagði Sandra sem var skiljanlega vonsvikin.
Fram undan er síðasti leikurinn í mótinu, gegn Færeyingum á laugardagskvöld. Færeyska liðið gerði jafntefli við Serba í dag, 31:31. „Það er einn leikur eftir sem við verðum að hafa gaman af því að spila þótt þessa stundina sé maður ógeðslega svekktur og nenni ekki pæla í framhaldinu alveg strax,“ sagði Sandra enn fremur.
Nokkri spes dómar í síðari hálfleik
Spurð út í dómgæsluna sagðist Sandra ekki hafa velt því sérstaklega fyrir. „Þó voru nokkrir dómar í seinni hálfleik sem voru svolítið spes. Má þar nefna að það er alveg fáránlegt að línumenn okkar fái tvisvar dæmda á sig ólöglega blokk, ekki síst þegar litið er til þess hvernig spænsku línumennirnir stóðu,“ sagði Sandra Erlingsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í kvöld.
Lengra viðtal við Söndru er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Arnar fer ekki í leikbann fyrir rauða spjaldið
HM kvenna ”25 – dagskrá, milliriðlar, úrslit, staðan
Tuttugu mínútna martröð í Westafalenhallen



