Það er erfitt að trúa því, að landsliðskonurnar okkar ætli að gefa eftir, þegar leikurinn stendur sem hæst. „Forsetabikarinn“ er í sjónmáli – fyrsti bikarinn, sem er í boði hjá konunum síðan á Norðurlandamótinu í Laugardalnum 1964. Þá tvíefldust landsliðskonur Íslands við hverja raun og tóku bikar traustum tökum.
Þegar menn trúðu að jafnvægi væri komið í leik stúlknanna á HM í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, vöknuðu þær upp við vondan draum. Sjálfstraustið hrundi á einu augabragði í leik gegn byrjendum frá Paraguay; óðagot náði yfirhöndinni og íslensku stúlkurnar fóru í hlutverk byrjenda.
Sóknarleikurinn varð dapur, feilsendingar margar og ýmsir aðrir feilar sáust, eins og of mörg skref tekin með knöttinn. En sem betur fer náðu stúlkurnar að fagna sigri, 25:19, sem þær geta þakkað Hafdísi Renötudóttur, markverði, sem varði eins og ljón.
Rólegur æsingur var ekki til staðar og yfirvegun hvarf. Það dugði ekki til að þjálfarinn Arnar Pétursson tæki leikhlé, til að reyna að breyta hugarfari og framkomu leikmanna sinna, sem héldu áfram á sömu braut; óðagoti og feilum í sendingum og
framkomu.
Til að ná settu marki – úrslitaleik um „Forsetabikarinn“ verður hugarfarsbreyting að verða á leik gegn Kínverjum.
Það er ekki aðeins hægt að brjóta upp á textann eftir Tómas Guðmundsson; „Það hvað vera fallegt í Kína!“
Krafan er núna, að stúlkurnar setji út brjóstkassann; mæti ákveðnar til leiks gegn Kínverjum. Leiki yfirvegað til sigurs; hugsi alltaf um næsta leik á vellinum, áður en þær senda knöttinn frá sér eða skjóti að marki. Þær verða að ná völdum á hraðanum, nýta hröð upphlaup og horn, ásamt línuspili og
gegnumbrotum.
Það þýðir ekkert að hugsa um það að það sé fallegt í Kína. Um það snýst ekki leikurinn. Hann snýst um sigur, ekkert annað en sigur.
Stúlkurnar sögðu að það hafi verið áfall að komast ekki í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. Ég hef ekki trú á því að þær vilja upplifa annað áfall gegn Kína.
Stúlkur, upp með fjörið!
Mange tak. På gensyn!
Sigmundur Ó. Steinarsson.