- Auglýsing -
- Auglýsing -

Það litla getur líka verið hellingur

Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs HK. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Haukarnir voru örlítið betri en við í kvöld. Okkur vantaði að stíga síðasta skrefið til þess að loka leiknum,“ sagði Sebastian Alexandersson þjálfari HK eftir tveggja marka tap fyrir Haukum, 26:24, í viðureign liðanna í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.


„Við erum bara komnir þangað að allar okkar viðureignir eru hörkuleikir. Ég hefði gjarnan viljað fá Haukaliðið sem lék í tveimur síðustu leikjum, en það varð ekki. Við vissum að Haukar myndu mæta reiðir og sárir og þeim tókst að ná frábærri frammistöðu. Upphafskaflinn hefði mátt vera betri hjá okkur en kannski sat það í mönnum hversu lélegir þeir hafa verið í síðustu leikjum. Þetta var flottur leikur hjá Haukum og það vantaði aðeins upp á hjá okkur. Kannski næst,“ sagði Sebastian.

Hlakkar til

Margir leikmenn HK eru frá vegna meiðsla. Sebastian sagðist ekki kvarta þrátt fyrir það. Hann stilli upp 16 leikmönnum í hvern leik.

„Ég get hinsvegar sagt það að ég hlakka til þegar þeir verða allir klárir í slaginn með okkur. Svo getur líka verið að við verðum ekkert betri því við höfum verið að leika mjög vel í síðustu fjórum eða fimm leikjum þótt úrslitin hafi ekki öll verið á þann veg sem við vildum. Það hefur vantað lítið upp á gegn toppliðum sem eiga að vera sterkari en við. En það litla getur líka verið hellingur,“ sagði Sebastian Alexandersson þjálfari HK í samtali við handbolta.is eftir leikinn á Ásvöllum í kvöld.

Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -