Arnar Daði Arnarsson þjálfari karlaliðs Gróttu var ómyrkur í máli vegna frammistöðu dómaranna í samtölum við vísir.is og mbl.is eftir naumt tap fyrir ÍBV í næst síðustu umferð Olísdeildar karla í handknattleik, 37:36, í Vestmannaeyjum í gærkvöld. Tapið veldur því að Grótta á ekki möguleika á úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni þegar lokaumferðin fer fram. Að minnsta kosti jafntefli hefði nægt Gróttumönnum til þess að komast í eftirsótta stöðu.
Stöðvuðu leiktímann
Fyrir utan að Gróttumenn voru oft manni færri á lokakafla leiksins þá sagði Arnar Daði í samtölum við vísir.is og mbl.is dómarana hafa gert afdrifarík mistök með því að stöðva leiktímann þegar 10 sekúndur voru til leiksloka í kjölfar þess að Ágúst Emil Grétarsson vann vítakast fyrir Gróttu. Andri Þór Helgason skoraði úr vítakastinu og jafnaði metin, 36:36. Sekúndurnar sem voru eftir, en hefðu ekki átt að verða eftir, nægði ÍBV til að vinna leikinn og gera út um vonir Arnars Daða og liðsmanna hans í Gróttu. Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði sigurmark ÍBV á elleftu stundu.
Eina sem mér dettur í hug
„Þeir taka þá ákvörðun að stoppa leikinn þegar tíu sekúndur voru eftir og eina sem mér dettur í hug er einfaldlega til þess að þeir vildu að ÍBV myndi fá tækifæri til að skora í lokasókninni. Annars gerðum við allt til að innbyrða stig,“ sagði Arnar Daði í samtali við Stöð2/Vísir.
Ítrekað flautaðir úr leik
„Ég ætla að vera heiðarlegur og hundleiðinlegur og segja það að við vorum flautaðir úr leik í dag í Olísdeildinni. Við vorum flautaðir úr leik á Akureyri þegar Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson dæmdu leik þar sem þeir tóku löglegt mark af okkur, þegar það voru 5 mínútur eftir í fyrri umferðinni og við erum að komast yfir í fyrsta skiptið eftir að hafa verið undir með sjö mörkum mest. Svo erum við flautaðir úr leik, ekki bara hérna í lokamómentinu, heldur síðustu tíu mínúturnar, ég veit ekki hvort það megi nota orðið skandall, en mér er skítsama og tímabilið er búið,“ sagði Arnar Daði í sambandi við mbl.is.
Umrætt atvik á Akureyri var til umfjöllunnar hér fyrir neðan:
Geta ekki viðurkennt mistök
„Það stendur ekki steinn yfir steini, þetta er svo týpískt, einhverjir dómarar sem geta ekki viðurkennt mistökin og finna bara afsökun, afsökun, afsökun, afsökun. Það er óþolandi, menn geta gert mistök og ég skil það, en þegar menn geta ekki viðurkennt mistökin þá er það óþolandi,“ sagði Arnar Daði við mbl.is.
Lof án innistæðu
Arnar Daði segir dómarana Ólaf Víði Ólafsson og Vilhelm Gauta Bergsveinsson hafa verið hlaðna lof á keppnistímabilinu án þess að mikil innistæða væri fyrir hendi. Þeir dæmdu leikinn í Vestmannaeyjum í gærkvöld.
„Handboltasamfélagið er bara ekki stærra en þetta og það er verið að reyna að hrósa fyrir lítil og engin verk,“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu þungur á brún í samtali við mbl.is.