Stjarnan vann þægilegan sigur á nýliðum FH, 29:21, í upphafsleik Olísdeildar kvenna í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld. Heimaliðið var með yfirhöndina í leiknum nánast frá upphafi og lét nýliðana ekki þvælast mjög fyrir sér.
Stjarnan var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:11. Liðið jók jafnt og þétt forskot sitt í síðari hálfleik gegn þó baráttuglöðu liði FH sem reyndi hvað það gat til þess að brúa bilið sem á milli liðanna var. Einkum tókst FH-liðinu vel upp í fyrri hálfleik þegar það hélt lengst af í við Stjörnuliðið.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir var markahæst hjá Stjörnunni með níu mörk. Helena Rut Örvarsdóttir, sem kom til liðsins í sumar frá SönderjyskE í Danmörku, skoraði sex mörk og Anna Karen Hansdóttir, sem einnig flutti frá Danmörku í sumar, kom þar á eftir með fimm mörk.
Heiðrún Dís Magnúsdóttir varð 13 skot í mark Stjörnunnar og Hildur Öder Einarsdóttir eitt.
Britney Cots var allt í öllu í sóknarleik FH-liðsins. Hún skoraði 11 mörk. Emilía Ósk Steinarsdóttir skoraði fjögur mörk.
Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir átti afbragðsleik milli stanganna í FH markinu og varði 16 skot.
Textalýsingu og nánari upplýsingar eru á Vísir.is .