- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þær rússnesku áttu aldrei möguleika

Anne Matte Hansen leikmaður Györ brýst í gegnum vörn CSKA í leiknum um bronsið í Meistaradeild Evrópu í Búdapest í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Györ og CSKA áttust við í leiknum um bronsverðlaunin í Búdapest í dag þar sem að ungverska liðið reyndist mun sterkara og vann með 11 marka mun,  32-21, eftir að hafa verið tíu mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:8.

Það var ljóst frá upphafsflauti að ungverska liðið ætlaði sér að bæta fyrir vonbrigðin frá því í undanúrslitaleiknum gegn Brest í gær. Það var mikill kraftur í þeim og eftir aðeins fimm mínútna leik voru þær komnar með þægilega forystu 5-1.

Akopian þjálfari CSKA brá á það ráð að taka leikhlé í þeirri stöðu í þeirri von um að vekja sitt lið. Henni varð ekki að ósk sinni og ungverska liðið hélt áfram að bæta forskot sitt hægt og bítandi.

Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var Györ komið með sex marka forystu 9-3 þar sem allar sóknaraðgerðir rússneska liðsins stöðvuðust á feikna öflugum varnarleik Györ og var eins og leikmenn ungverska liðsins sáu fyrir um allar aðgerðir rússanna því hvað eftir annað gengu þær hreinlega inní sendingar þeirra og geystust fram í hraðaupphlaup. Yfirburðir Györ héldu áfram það sem eftir var hálfleiksins og þegar flautað var til loka hans var ungverska liðið komið með 10 marka forystu, 18-8.

Þær ungversku slökuðu ekkert á klónni í upphafi síðari hálfleiks en þær skoruðu fjögur fyrstu mörk hálfleiksins og juku forystu sína í 22-8.

Yfirburðir Györ voru algjörir það sem eftir lifði leiks og fór svo að lokum að Györ vann 11 marka sigur 32-21. Ungverska liðið hélt áfram að skrifa nafn sitt í sögubækurnar með þessum sigri því þetta er stærsti sigur liðs í Final4 úrslitahelginni frá því að hún var sett á laggirnar. Það var ekki eina söguritunin sem átti sér stað í þessum leik því að drottningin Anita Görbicz skráði nafn sitt enn á ný á spjöld sögunnar því hún jafnaði met Nycke Groot yfir flest mörk skoruð á Final4 úrslitahelginni. Þær stöllur hafa nú skorað 57 mörk hvor í Final4. Það fer kannski vel á því að báðir þessir frábæru leikmenn léku síðustu handboltaleiki sína um helgina. Nycke Groot mun eins og Gröbicz leggja skóna á hilluna að lokinni þessari leiktíð.

Györ 32-21 CSKA (18-8)
Markaskorarar Györ: Stine Bredal Oftedal 7, Veronica Kristiansen 6, Estelle Nze Minko 3, Anne Mette Hansen 3, Anita Görbicz 3, Kari Brattset 2, Eduarda Amoriom 2, Viktoria Lukács 2, Dorottya Faluvégi 2, Laura Kurthi 1, Csenge Fodor 1.
Varin skot: Silje Solberg 7, Laura Glauser 4.
Markaskor CSKA: Elena Mikhaylichenko 4, Kathrine Heindahl 3, Sara Ristovska 3, Polina Gorshkova 2, Darya Dmitrieva 2, Ekaterina Ilina 2, Antonina Skorobogatchenko 2, Polina Vedekhina 1, Marina Sudakova 1, Natalia Chigirinova 1.
Varin skot: Chana Masson 4, Anna Sedoykina 3.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -