„Það er gaman að koma inn í þessa flottu keppnishöll og fá aðeins tilfinninguna fyrir þessu,“ segir Lovísa Thompson landsliðskona í handknattleik sem eftir mikla þrautseigju og vinnu er mætt með íslenska landsliðinu á stórmót í fyrsta sinn á keppnisferlinum.
„Það er tilhlökkunarefni að leika hér á morgun með sex þúsund áhorfendum,“ segir Lovísa og segir mikinn heiður að fá tækifæri til þess að taka þátt í stórmóti með landsliðinu.
„Það er ótrúlega gaman að vera með. Margar hafa tekið þátt tvisvar en ég er nýliði,“ segir Lovísa sem hefur fylgst með stórmótum í sjónvarpi síðustu ár en gert sér vonir um að vera með einn góðan veðurdag.
„Ég er glöð að hafa unnið úr mínum málum og standa hér í dag,“ bætir Lovsía við en hún glímdi lengi við erfið meiðsli sem settu töluvert strik í reikninginn fyrir tveimur til þremur árum.
„Maður á bara að gleðjast og þakka fyrir að vera komin hingað. Það er ekkert sjálfsagt. Að baki er mikil vinna sem hefur skilað mér hingað,“ segir Lovísa Thompson.
Lengra viðtal við Lovísu er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Fleira efni:
HM kvenna ”25 – dagskrá, riðlakeppni
Landslið Íslands á HM kvenna 2025
A-landslið kvenna – fréttasíða.



