Thea Imani Sturludóttir, leikmaður Vals og íslenska landsliðsins, hefur verið úrskurðuð í eins leiks bann vegna ódrengilegrar hegðunar í leik Vals og ÍR í 9. umferð Olísdeildar í síðustu viku. Frá þessu segir í fundargerð aganefndar HSÍ í dag. Thea Imani tekur út leikbann þegar Valur mætir Stjörnunni í Olísdeildinni laugardaginn 13. desember.
Thea Imani braut af sér undir lok leiksins og mátu dómarar leiksins brotið falla undir reglu 8:11 a). „Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 1. mgr. 11. sömu reglugerðar,“ segir í fyrrnefndri fundargerð.
Hér má sjá myndskeið af atvikinu sem kostaði The Imani eins leiks bann:
Myndskeið: Þess vegna fékk ÍR vítakast á síðustu sekúndum
Þrír eiga að hugsa sinn gang
Tómas Bragi Starrason leikmaður Gróttu, Róbert Snær Örvarsson leikmaður ÍR og Dagur Fannar Möller leikmaður Fram sem allir voru útilokaðir með skýrslu vegna ódrengilegrar hegðunar í kappleikjum á dögunum voru ekki úrskurðaðir í leikbann. Þeir eru minntir á stighækkandi áhrif útlokana vegna slíkra brota.
Aganefnd HSÍ | Úrskurður 18.11. ’25


